Mælingar sýna áframhaldandi aflögun á svæðinu við kvikuganginn, sem liggur undir Sundhnúkagígaröðinni og Grindavík.
Niðurstöður mælinganna eru í samræmi við það að kvika flæði enn inn í ganginn. Hluti hans virðist vera að storkna, einkum til jaðranna, en ekki við uppstreymissvæði kviku. Það er talið vera við Sundhnúk.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Tekið er fram að frá miðnætti hafi mælst um 800 smáskjálftar, langflestir um miðbik kvikugangsins við Sundhnúk á um 3-5 km dýpi.
Á heildina litið virðist staðan vera óbreytt frá því í gær. Líkur á eldgosi eru enn taldar miklar. Komi til goss er líklegust staðsetning við kvikuganginn.