Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur segir að kvikan á Reykjanesskaga sé á litlu dýpi undir kvikuganginum en líkur á eldgosi séu svipaðar og hafa verið undanfarna daga.
„Það dregur úr jarðskjálftavirkni en jarðskorpuhreyfingarnar í kringum kvikuganginn halda áfram og í mínum huga er staðan óbreytt frá því í gær. Líkur á eldgosi eru svipaðar vegna þessara kvikuhreyfinga í ganginum,“ segir Freysteinn í samtali við mbl.is.
Ákveðið var að grípa til skyndilegrar rýmingar í Grindavík um miðjan dag í gær eftir að mælar mældu meira brennisteinsgas í andrúmslofti. Spurður hvað hann lesi út úr þessu segir Freysteinn:
„Brennisteinsgasmælingin staðfestir að kvikan er á litlu dýpi undir kvikuganginum og það er svo sem í takt við sem talað hefur verið um og jarðskorpuhreyfingarnar. Það er ekki víst að kvikan sé að færast endilega nær yfirborði en hún er komin mjög grunnt. Við getum ekki útilokað að þetta séu bara merki frá því sem er búið að gerast á síðustu dögum,“ segir Freysteinn.
Hann segir að út frá mælingum á jarðskorpuhreyfingum sé meiri óvissa um dýpi á kvikuganginum undir sigdalnum þar sem jarðskorpan þar sé orðin mjög brotin upp.
„Ef þetta brennisteinsgas hefur komið úr kvikuganginum þá er kvikan kannski nær 500 metrum vegna þess að kerfið er þannig að þessi brennisteinsgös eru í kvikunni og það er háð þrýstingi hvenær þau losna út. Það gerist ekki fyrr en á 500-1.000 metra dýpi,“ segir Freysteinn.
Um mögulega staðsetningu hugsanlegs goss segir Freysteinn:
„Ég held að upptakasvæði yfir þessum kvikugangi sé langlíklegast en spurningin er hvar á kvikuganginum eldgos yrði. Það er erfitt að segja til um það en kannski eru mestar líkur á að það verði gos norðan við Grindavík nálægt Hagafelli. En við verðum að vera við öllu búin varðandi eldgos annars staðar.“