Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir næstu skref að meta hvort tæma þurfi þau hús í Grindavík sem eru augljóslega mikið skemmd. Hann segir ljóst, miðað við sýnilegt tjón í Grindavík, að fram undan sé mjög langt ferli.
Blaðamaður mbl.is náði tali af Víði í aðgerðastöð viðbragðsaðila, skammt fyrir utan Grindavík, í dag.
Er þetta í fyrsta skiptið sem Víðir fer þangað síðan atburðarásin fór af stað fyrir helgi, en hann hefur starfað frá samhæfingarstöð almannavarna undanfarna daga.
Hvers vegna ert þú kominn hingað í aðgerðastöðina?
„Ég er hér því það er gott að hitta fólkið sem er að vinna við þetta, það er auðveldara að tala um hlutina svona þegar maður sér framan í fólkið.“
Að sögn Víðis er verkefni dagsins áframhaldandi verðmætabjörgun. Að fólk komist heim til sín, geti kíkt á eldsnöggt á húsin sín og tekið með sér helstu verðmæti.
Aðspurður segist Víðir hafa þessi skilaboð til Grindvíkinga:
„Við erum fara inn í mjög langt ferli, ég held að það sé alveg ljóst. Þau umbrot sem hafa orðið inni í bænum sýna okkur það að tjónið, sem er orðið sýnilegt, það er orðið verulega mikið og það mun taka mjög langan tíma að koma þessu aftur í samt lag.
Það er bara verið að vinna að því eins og hægt er í þessari óvissu sem er, en markmiðið verður að koma hlutunum hér í eins mikið lag og hægt er.“
Þar sem atburðarásin er enn í gangi, jarðskorpan heldur áfram að síga og kvikuinnstreymið heldur áfram, segir Víðir lítið hægt að ákveða um aðrar sértækar aðgerðir. Á meðan staðan er þannig verður áfram unnið að gerð varnargarða, auk þess sem reynt verður að bjarga eins mikið af verðmætum og hægt er.
„Við erum að verða komin með þennan fyrsta fasa sem við ætluðum okkur að ná, að allir fengju að skjótast heim og taka eitthvað smávegis. Síðan þurfum við bara að meta næsta fasa, hvort að það þurfi að fara að tæma hús sem eru augljóslega mikið skemmd og annað slíkt.“