Tilkynningum um heimilisofbeldi og ágreining sem bárust lögreglunni á landsvísu fyrstu níu mánuði ársins fjölgaði um 4%, samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára.
Meginbreytingin er að skráðum tilkynningum um ágreining milli tengdra og skyldra hefur fjölgað um 6% á meðan tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fækkað um 3% samanborið við síðustu þrjú ár, að því er kemur fram í tilkynningu lögreglunnar.
Lögreglan á landsvísu fékk 1.802 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila á tímabilinu. Jafngildir það að meðaltali tæplega sjö slíkum tilkynningum á dag eða 200 á mánuði.
Í 78% tilvika heimilisofbeldis var árásaraðili karl og í 68% tilvika var brotaþoli kona. Þegar horft er til tilvika heimilisofbeldis þar sem ofbeldi á sér stað milli maka eða fyrrum maka er 81% árásaraðila karlar og 75% brotaþola konur. Meðalaldur árásaraðila er 38 ár og árásarþola 35 ár.
Algengast er að tengslin séu makar eða fyrrverandi makar, eða 70% málanna. Þá varðar rúmur fimmtungur málanna foreldra og börn, ótengd aldri barns.
Hægt er að tilkynna mál til 112. Þá má finna upplýsingar um helstu úrræði vegna heimilisofbeldis á 112.is.