HS Veitur ákváðu á fundi í morgun að hinkra með aðgerðir í Grindavík að svo stöddu en staðan er í stöðugu endurmati.
Þetta segir Sigrún Inga Ævarsdóttir, upplýsingafulltrúi HS Veitna.
Spurð út í tjónið á dreifikerfinu í bænum segir hún fyrirtækið ekki hafa haft tök á því að senda fólk á staðinn til að gera frekari bilanagreiningar vegna neyðarstigs og rýmingar.
Líklega eru skemmdirnar þó víðtækari en fyrst var talið vegna stöðugra jarðskjálfta, jarðsigs og jarðgliðnunar.