„Þetta er bara fáránlegt, gjörsamlega fáránlegt. Maður er bara vonsvikinn. Við fáum ekki að fara heim en svo eru bara einhverjir óprúttnir aðilar sem fá að ganga um bæinn eins og ekkert sé.“
Þetta segir Rakel Lilja Halldórsdóttir, íbúi í Grindavík, sem birti myndskeið á facebook úr öryggismyndavél sem sýnir tvo menn koma að húsi hennar skömmu fyrir fimm í morgun.
Þar grípa þeir hvor um sig reiðhjól sem stóðu fyrir utan dyrnar og hjóla á þeim í burtu. Mennirnir komu svo rúmum 20 mínútum síðar og skiluðu hjólunum.
Rakel segir að þeir hljóti að hafa notað hjólin til að komast hraðar um bæinn en þeir höfðu bakpoka meðferðis.
Segir hún í samtali við mbl.is að hún hafi aldrei átt von á að sjá eitthvað þessu líkt.
„Ég er búin að vera á hverjum degi að kíkja yfir myndefni og annað að athuga hvort maður sjái eitthvað sem er í gangi eða þannig. Ég átti engan veginn von á því þegar ég opnaði myndskeiðið að þetta yrði það sem myndi blasa við mér.
Maður hélt að húsin og það sem er fyrir framan væri óhult, það ætti enginn að vera þarna,“ segir Rakel og bætir því við að henni þyki þetta mjög óþægilegt.
„Það er bara mjög leitt að sjá að þetta sé að gerast. Maður hefur treyst því að allt fái að vera í friði. Ég er búinn að tilkynna málið til lögreglu og senda lögreglunni myndskeiðið.“
Í færslunni á facebook spyr Rakel hvar löggæslan sé á næturnar en hún segir að lögreglan hafi ekki gefið neina útskýringu vegna málsins.
„Það eru margir vegir og slóðar sem liggja að bænum og maður svo sem skilur að þeir [lögreglan] geti ekki verið alls staðar.
Rakel var stödd með fleiri Grindvíkingum þegar hún opnaði myndskeiðið. Hún segir að fólk hafi fengið áfall.
„Að vita að heimilin eru ekki óhult fyrir utanaðkomandi aðilum.“ Segir hún að ein hafi kíkt á sitt myndefni en það hafi ekkert athugavert verið þar en hún segir að auðvitað séu ekki öll heimili með myndavélar.
Þá veltir hún fyrir sér hvað mönnunum hafi gengið til en þeir gengu ekki á hurðina hjá henni.
„Það heyrist í þeim á upptökunni kíkja inn um gluggann. Maður spyr sig hvað þeir voru að spá af því að þeir ganga ekki á hurðina.“