Telur líkur á gosi heldur dvína

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, telur líkur á eldgosi fara …
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, telur líkur á eldgosi fara dvínandi. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að hreyfingarnar við Grindavík haldi áfram.

Þorvaldur segir í samtali við mbl.is að hvað svo sem það sé sem valdi gliðnuninni þá haldi áfram að teygjast á hlutunum.

„Það er eitthvað sem heldur áfram að ýta þessu burtu frá hvort öðru þannig að við höfum þessa gliðnun, þó hún sé hægari núna heldur en hún var þegar mest á gekk.“

Sprungur vaxið um allt að 4 til 8 sentimetra

Þorvaldur segir að atburðarásin haldi áfram á nokkuð jöfnum púlsi og að skjálftavirknin sé á svipuðum slóðum og hún hefur verið.

„Hún er heldur meiri aftur í dag en í gær og gliðnunin heldur áfram. Við erum með gliðnunarskjálfta og svo líka með sniðgengisskjálfta, þannig að það er lárétt hreyfing í þessu.“

Á síðustu tveimur dögum hafa sumar sprungurnar stækkað um 4 til 8 sentimetra að sögn Þorvaldar.

Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem …
Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem gos þykir einna líklegast. mbl.is/Eggert Johannesson

Segir líkurnar nálgast 30%

Fyrir síðustu helgi mat Þorvaldur um 60% líkur á gosi en á mánudag um 40%. Nú segir hann mat sitt vera að nálgast 30%.

„Maður sér eiginlega voða lítil ummerki um að þessi kvika sem er þarna niðri sé að flýta sér upp. Eftir því sem lengra líður frá finnst mér draga úr líkum á gosi, alla vega á reininni sem er næst Grindavík. Það getur alveg gosið ennþá – við erum ekkert sloppin með það.“

Syllan þenst út að nýju

Þá nefnir hann að syllan sem eitthvað kvikumagn var tekið úr á föstudag sé aftur byrjuð að þenja sig.

„Það getur tekið hana einhvern tíma fyrir hana að ná fyrri stöðu. Kannski gerist ekkert fyrr en það er búið.“

Segja má að mat Þorvaldar gangi nokkuð gegn því sem Ármann Höskuldsson kollegi hans fullyrti í samtali við mbl.is fyrr í kvöld. Hann segir það ekki spurningu um hvort, heldur hvenær, gos verði. 

Enn líklegast að gjósi nærri Hagafelli

Ef kemur til goss segir Þorvaldur að hann telji enn langlíklegast að það gjósi við Hagafellið og þar í kring þar sem skjálftavirknin hefur verið mest.

„Hún er nú farin að teygja sig aðeins lengra bæði til norðurs og suðurs en það er enn langlíklegasta að gos komi upp á því svæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka