„Ég sit núna hérna í bílskúrnum hjá pabba mínum á Akranesi og hann átti nú örugglega ekki von á því að ég myndi flytja aftur inn á hann tæplega fimmtug,“ segir Margrét Bjarnadóttir, tannfræðingur, rekstrarstjóri harðfiskverkunarinnar Stjörnufisks í Grindavík og forfallin golfáhugamanneskja, í samtali við mbl.is.
Þau Þorlákur Grímur Halldórsson maður hennar, skipstjóri, harðfiskverkandi hjá Stjörnufiski, fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda og golfkennari, yfirgáfu heimili sitt í Grindavík á föstudag ásamt tveggja og hálfs árs gamalli dóttur og héldu á æskuslóðir þeirra beggja á Akranesi þar sem þau munu nú hafast við um óvissan tíma.
„Ég er bara að ganga frá hlutum núna, maðurinn minn fékk tíma til að stökkva inn í húsið, hann tók fötin í fangið og henti þeim út í bíl og ég er að fara í gegnum það núna hvað það var sem hann tók,“ segir Margrét sem búið hefur í Grindavík frá 2018 en bjó lengi vel í Noregi og var þar meðal annars við nám í tannfræðum sínum.
Þorlákur var lengi með útgerð í Grindavík en nú reka þau Margrét Stjörnufisk saman í Staðarsundi, austast í Grindavík. „Í þessari lengju eru fimm fyrirtæki og við vitum að það er mikið tjón á tveimur húsanna. Maðurinn minn hljóp þarna inn og sá sprungur í veggjum um allt. Við vorum með töluvert magn af fiski sem var tilbúinn að fara út í verslanir og tókst að bjarga honum og svo tóku þeir minni tæki sem hægt var að bera, klipptu á rafmagnssnúrur og báru þau út í bíl,“ segir Margrét frá.
Þá hafi Þorlákur með naumindum getað ekið í burtu frá verkuninni vegna stórrar sprungu sem liggur þvert gegnum bílastæðið framan við húsnæðið.
Margrét segir frá því þegar hún hringdi í foreldra sína á Akranesi á föstudaginn og var þá alveg búin að fá nóg af jarðhræringum, bað um að fá að koma í „skjálftafrí“ upp á Skaga sem var auðsótt mál. „Ég varð bara að fá svefnfrið svo ég fer heim úr vinnunni, tek smá dót, kippi hundinum með og ákveð svo bara að fara beint á leikskólann, sækja dóttur mína og fara beint þaðan,“ segir Margrét frá.
Þegar hún var að aka frá leikskólanum kom slíkt högg á bifreið hennar að hún taldi sig hafa lent í árekstri, svo sterkur var skjálftakippurinn sem þá reið yfir og varð harðfiskrekstrarstjóranum þá ekki um sel. „Við förum upp á Skaga og Þorlákur er á námskeiði í Reykjavík með fullt af ósvöruðum símtölum frá mér, þá var orðið ljóst að átti að rýma bæinn. Hann keyrir heim, grípur með sér dót og kemur sér í burtu,“ segir Margrét.
Segir hún Þorlák hafa sagst feginn því að hún var ekki viðstödd því eitt hafi verið að hlusta á jarðskjálftadrunurnar en öllu óhugnanlegri hafi hávaðinn á heimili þeirra verið þegar húsið gekk til í jarðhræringunum en stór sprunga opnaðist aðeins um þrjátíu metra frá því.
„Hann var tvisvar sinnum nærri dottinn í gólfið inni í húsinu vegna skjálfta,“ segir Margrét en kveður þó sjáanlegt tjón á húsinu ekki hafa verið mikið, sprungur meðfram gluggum séu sjáanlegar og í bílskúrsgólfi en ekki stórar sprungur í veggjum enn sem komið er. Þorlákur hafi þó ekki haft tíma til að kanna málið gaumgæfilega en hús þeirra er nýtt raðhús, byggt 2018.
„Þannig var föstudagurinn. Svo komum við upp á Akranes og fólki brá alveg svakalega hérna. Það er kannski ekki hægt að segja að maður sé sjóaður í jarðskjálftum en ég hugsaði með mér að þetta væri nú bara eins og meðalkippur heima hjá okkur þótt fólk væri bara í sjokki uppi á Skaga. Maður er bara dofinn, maður veit stundum ekki hvort maður á að hlæja, gráta eða hvað maður á að gera en maður er bara dofinn og að reyna að halda sönsum fyrir sína nánustu,“ segir Margrét þegar hún rifjar upp síðustu daga.
Þegar boð komu á sunnudag og í gær [á mánudag] um að fólk mætti sækja helstu nauðsynjar hafi reglan verið sú að tveir mættu fara inn í fyrirtæki þeirra Þorláks en einn inn á heimilið. „Helst vildi ég fá að fara með Þorláki en hann er nú raunsær maður og benti mér á að það væri glapræði og ekkert vit að við værum bæði á ferð saman ef eitthvað gerðist, betra væri að börnin okkar misstu annað foreldrið en bæði og auðvitað er alveg svakalegt að heyra svona, maður hugsaði bara einhvern veginn ekki út í þá raunverulegu hættu sem þarna er á ferð,“ segir Margrét hugsi.
Dauðir hlutir séu eitt en þegar þau hafi tekið að hugsa málið lengra – um afleiðingar þeirra náttúruhamfara sem nú ógna heimabyggð þeirra – hafi frekari hugsanir knúið dyra, svo sem um starfsfólk þeirra hjá Stjörnufiski. „Við erum með frábært starfsfólk sem hefur unnið lengi hjá okkur. Það veit ekki hvernig verður með vinnu, það mun kannski missa húsnæðið eða aleiguna, það er þetta sem er svo skrýtið, svo óvenjulegt,“ segir Margrét.
Spurð út í atvinnumál á næstunni kveðst hún þegar hafa farið í að athuga með húsnæði til bráðabirgða fyrir harðfiskverkunina á Akranesi og þegar fengið góð viðbrögð. „Ég get auðvitað ekki verið að koma með flökunarvél inn í bílskúr til pabba en hringdi í góða menn og sagði þeim hver staðan var og einn þeirra, Eiríkur Vignisson heitir hann, sagðist ætla að fara í málið fyrir mig svo vonandi er verið að vinna í að við getum alla vega komið dótinu inn, hvernig verður með framhaldið upp á verkun vitum við ekki en vonum það besta, við erum það heppin að það hefur verið mikil eftirspurn eftir þessari vöru hjá okkur en við sjáum ekki að hægt verði að gera nokkuð í Grindavík næstu mánuðina,“ segir Margrét af stöðunni í heimabænum.
Hún segir þau Þorlák í góðri stöðu með að halda áfram rekstri miðað við marga aðra. „En óvissan er svo ofboðsleg alls staðar. Maður verður bara að taka einn dag í einu, allt breytist og nú erum við bara þakklát fyrir allt dót sem við náum úr húsinu hve mikið svo sem það verður, en á tímabili spurðum við okkur bara hvort við værum að tapa öllu innbúi úr húsinu og fyrirtækinu og komin allt í einu í unglingaherbergi hjá mömmu og pabba, stundum hlær maður bara og stundum grætur maður,“ segir Margrét og velur hér fyrri kostinn og hlær hjartanlega þrátt fyrir allt. Hlátur er græðandi.
Margrét og Þorlákur eiga til samans þrjár dætur, eina 29 ára í London, aðra 19 ára sem er að ljúka stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, og býr mikið til hjá föður sínum þar í bænum, og að lokum þá litlu sem áður er getið.
„Þær eru auðvitað líka á nálum og önnur þeirra eldri svaraði, þegar ég spurði hana hvort Lalli ætti að kippa einhverju með sér heima, að hana langaði svo í bangsann sem hún vann í tívolíi þegar hún var sex ára. „Ég spurði mömmu hvað hún tæki með sér ef hún fengi fimm mínútur til að taka með sér af heimilinu það sem henni væri kærast og hún sagði mér að hún þyrfti nú bara að hugsa sig um,“ segir Margrét.
Þrátt fyrir að Margrét sé gædd ríkulegri kímnigáfu játar hún að ástandið í heimabænum sé eins og martröð sem hún bíði þess að vakna af. „Og óvissan er það versta, hún er svo ofboðslega erfið. Ég sagði við mömmu að það væri skrýtið að eiga þá ósk að það færi að gjósa einhvers staðar á öruggum stað. Þegar við fórum upp á Skaga var alltaf verið að tala um að Svartsengi eða Bláa lónið væru í hættu en nú er bara verið að tala um alla Grindavík. Er fólk að fara að missa stærsta hlutann af eigum sínum og kannski vinnuna?“ spyr Margrét.
Talið berst að samstöðu Íslendinga þegar skórinn kreppir sem Margrét telur einstaka. Ungur björgunarsveitarmaður hafi bankað upp á þegar Þorlákur var á heimili þeirra í gær [mánudag] að sækja helstu nauðsynjar og spurt hvort hann gæti aðstoðað. Ekki þurfti skipstjórinn aðstoð svo björgunarsveitarmaðurinn kvaddi og kvaðst ætla að líta til nágrannanna og sjá hvernig þeim reiddi af.
„Gríðarstór hópur er að vinna svo mikilvægt starf og fyrir það er maður auðvitað endalaust þakklátur, ég get ekki sagt annað,“ segir Margrét.
En hafið þið íhugað hvort þið getið hugsað ykkur að búa í Grindavík áfram eftir þetta áfall?
„Ég held að þótt ekki gjósi núna verði mjög erfitt að finna aftur þetta öryggi sem maður þarf að hafa heima hjá sér, maður þarf að hafa ró og öryggi þar og það verður mjög erfitt,“ segir Margrét eftir stutta umhugsun. „Snýr maður aftur? Ef húsið og fyrirtækið og allt er farið? Ég veit það ekki,“ segir Margrét Bjarnadóttir, Skagamaður og Grindvíkingur, af einlægni.