Alvarlegt „hve mikið vantraust ríkir í garð MAST“

Í skýrslu ríkisendurskoðanda segir að Mast standi frammi fyrir margvíslegum …
Í skýrslu ríkisendurskoðanda segir að Mast standi frammi fyrir margvíslegum áskorunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisendurskoðun hefur komist að þeirri niðurstöðu að ýmislegt megi bæta í starfsemi og starfsumhverfi Matvælastofnunar (MAST) til að ná fram betri árangri í eftirliti stofnunarinnar með velferð búfjár. 

Þetta kemur fram í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar um eftirlit MAST með velferð búfjár sem embættið kynnti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag.

Rúmt ár er liðið síðan Ríkisendurskoðun ákvað að hefja stjórnsýsluúttektina á eftirliti MAST með velferð dýra. Markmið úttektarinnar var að kanna hvort eftirlitið væri skilvirkt og árangursríkt, auk þess að kanna hvort það væri í samræmi við lög og reglugerðir um velferð dýra. 

Stjórnsýslan má ekki vera á kostnað velferðar dýra

Í skýrslunni segir meðal annars að MAST þurfi að leggja aukna áherslu á að stjórnsýsluleg framkvæmd sé ekki á kostnað velferðar dýra. Að stofnunin þurfi að huga betur að innri og ytri upplýsingagjöf, virkja betur samstarfsráð sitt, bæta samskipti og samstarf við hagaðila auk þess að byggja upp aukið traust. 

Þá segir að MAST þurfi að þróa skipulag, verklag og framkvæmd eftirlits nánar og beita áhættu- og frammistöðumati í meira mæli en gert er. 

Gert að leggja meiri áherslu á að dýr njóti vafans

Til að ná fram þeim umbótum sem MAST er gert að vinna að, eru lagðar fram sjö ábendingar. Ein þeirra snýr að því að stofnunin leggi meiri áherslu á að dýr njóti vafans með hliðsjón af markmiðum laga um velferð dýra. 

Í ábendingunni segir að MAST þurfi að leggja meiri áherslu á að dýr njóti vafans þegar velferð þeirra er ógnað og að stofnunin þurfi ávalt að hafa markmið laga um velferð dýra að leiðarljósi. 

„Vanda þarf málsmeðferð en hún má þó ekki verða til þess að mál dragist á langinn á kostnað velferðar þeirra dýra sem um ræðir hverju sinni. Ríkisendurskoðun telur sterk rök hníga að því að MAST stígi fastar niður í málum þar sem brotið er á dýrum.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að dæmi séu um að MAST hafi þétt eftirlit með búrekstri, þar sem fjöldi frávika er skráður, árum og jafnvel áratugum saman án þess að aðstæður batni til frambúðar.

„Markmið laga um velferð dýra er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu m.a. laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningar. Enn fremur að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. Með tilliti til þessa verður að teljast óásættanlegt að langur tími líði þar sem dýr líða hungur, vanlíðan og þjáningar eða búi við óviðunandi aðstæður.“

Nauðsynlegt að leita leiða til að efla traust í garð MAST

Þá er lögð rík áhersla á að MAST bæti ímynd sína, en í ábendingu frá ríkisendurskoðanda segir að nauðsynlegt sé að MAST leiti leita til að efla traust í garð stofnunarinnar. Í niðurstöðum skýrslunnar segir til að mynda að „alvarlegt sé hve mikið vantraust ríki í garð MAST, bæði meðal fagfólks og almennings“

„Stofnunin þarf að ráðast í raunverulegar umbætur til að bæta ímynd sína og má þar m.a. nefna að efla upplýsingagjöf eins og hægt er til almennings, fjölmiðla, hags-munaaðila og eigin starfsmanna. Þá þarf stofnunin með virkum hætti að stuðla að óhæði starfsmanna sinna í reynd og ásýnd. Hagsmunaárekstrar grafa undan trausti fólks til stofnunarinnar og eftirlits hennar með dýravelferð,“ segir í ábendingu frá ríkisendurskoðanda. 

Í hinum ábendingunum segir að MAST þurfi að þróa frekar verklag um áhættu- og frammistöðumat, efli gæðastjórnunarkerfi, endurskoða gerð eftirlitsáætlana, tryggja betri yfirsýn með vöktun frávika og efli lögbundið samráð og samstarf við hagaðila.

Stjórnvöldum gert að bæta úr gjaldskrá stofnunarinnar

Þá er sex ábendingum beint til matvælaráðuneytis. Snúa þær að því að skýra þurfi stefnu um samræmi við erlendar kröfur, endurmeta þurfi kröfur um tilkynningarskylt dýrahald og að endurskoða þurfi ábyrgð á skipan yfirdýralæknis, starfsemi og hlutverk fagráðs um velferð dýra, aðkomu ráðuneytisins að innri úttektum og gjaldskrá MAST.

Til viðbótar er stjórnvöldum gert að setja skýra stefnu um með hvaða hætti kröfur um dýravelferð eigi að fylgja þróun í evrópskum rétti. Auk þess sem stjórnvöldum er gert að bæta úr því að gjaldskrá stofnunarinnar hefur ekki fylgt raunkostnaði við eftirlit í lengri tíma, með neikvæðum áhrifum á starfsemina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert