Sigurður Bergmann, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum og íbúi í Grindavík, segir að vinnuhópar frá HS Orku, HS Veitum, Vegagerðinni og fleirum hafi farið inn í Grindavík í morgun í fylgd björgunarsveita til að meta skemmdir í bænum og gera við eftir atvikum.
Sigurður segir að stóra verkefni dagsins sé að fylgja þeim íbúum sem hringt var í í gær inn á hættusvæðið samkvæmt skipulagi.
„Vonandi gengur það vel,“ segir hann.
Aðspurður segir Sigurður að unnið sé eftir ákveðnum listum. „Margir eru búnir að fara en vissulega einhverjir sem ekki hafa komist einhverra hluta vegna. Margir hafa lent ítrekað í biðröðum og verið synjað um að fara, sem er alveg bagalegt. Skiljum það ósköp vel.“
Nú sé verið að einblína á íbúa sem búa í hverfinu vestan Víkurbrautar.
„Klukkan eitt liggur síðan fyrir hvernig dagurinn vinnst áfram. Við ætlum að reyna að þjónusta og fylgja fyrirtækjum eftir hádegi í verðmætabjörgun. Þetta er upplegg dagsins og sennilega verður það sama á morgun,“ segir hann.
Sem fyrr segir er Sigurður sjálfur búsettur í Grindavík. Húsið hans er inni á skilgreindu hættusvæði og aðspurður segist hann hafa náð að líta á húsið sitt sem virðist vera óskemmt.