BBQ-kóngurinn náði ekki að bjarga grillunum

Alfreð Fannar er betur þekktur sem BBQ-kóngurinn.
Alfreð Fannar er betur þekktur sem BBQ-kóngurinn. Samsett mynd

Grindvíkingar hafa í vikunni reynt að bjarga verðmætum á heimilum sínum. Því miður næst ekki að bjarga öllu og því fékk einn þekktasti sjónvarpskokkur landsins að kynnast. BBQ-kóngurinn er sem stendur verkfæralaus.

„Maður fór bara á fólksbíl og náði að bjarga því sem manni þykir vænst um,“ segir Alfreð Fannar Björnsson, betur þekktur sem BBQ-kóngurinn, í samtali við mbl.is.

„Vildi ekki vera með einhverja frekju“

Alfreð er Grindvíkingur og hefur síðustu ár tekið upp matreiðsluþætti og efni fyrir Instagram á pallinum heima hjá sér.

Þar hafa ófáar stórsteikurnar fengið fagmannlega meðferð hjá Kónginum og á pallinum er jafnan að finna allskonar grill og tilheyrandi hjálpartæki. Í þeim hremmingum sem nú ganga yfir Grindavík hefur ekki tekist að sinna öllu og meðal þess sem varð út undan eru grillin hjá Alfreð.

„Það fengu allir bara tíu mínútur og maður virti það bara. Grillin urðu því eftir. Ég vildi ekki vera með einhverja frekju en svo heyrði maður af fólki sem var miklu lengur en tíu mínútur og var að bjarga fullt af hlutum.“

„Allt það flottasta frá Weber“

Í þáttunum hefur pallurinn hjá Alfreð oft verið smekkfullur af grillum en hann segir að þau hafi verið færri núna.

„Ég var kominn niður í sex grill. Maður býr náttúrlega með konu og þegar maður fær nýtt grill þarf maður gjarnan að láta eitt eða tvö á móti. En þetta var samt allt það flottasta frá Weber,“ segir Kóngurinn sem kveðst þó ekki hafa miklar áhyggjur af grillunum og afdrifum þeirra í stóra samhenginu. „Maður byrjar bara upp á nýtt, það þýðir ekkert að velta sér upp úr því.“

Ekki hættur að grilla

Alfreð starfar á daginn sem bílamálari í Keflavík og dvelur nú hjá tengdaforeldrum sínum í Kópavogi. Hann tekur stöðunni af æðruleysi.

„Ef allt fer á versta veg verður maður bara að finna sér eitthvað að gera í borginni,“ segir hann og kveðst síður en svo vera hættur að standa við grillið og taka upp efni.

„Nei, það er auðvitað mjög gott að fá peninga fyrir eitthvað sem maður hefur mikla ánægju af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert