Borholan í Svartsengi var ekki tengd

Kvikugas í borholum hefur ekki áhrif á neysluvatn virkjunarinnar.
Kvikugas í borholum hefur ekki áhrif á neysluvatn virkjunarinnar. Hákon Pálsson

Borholan í Svartsengi þar sem kvikugas mældist í dag er ótengd vinnslunni og hefur verið það um hríð. Gas í borholum myndi ekki hafa áhrif á neysluvatn virkjunarinnar, að sögn upplýsingafulltrúa HS Orku.

Kvikugas, eða brennisteinsdíoxíð, mældist í dag upp úr borholu í Svartsengi sem er rétt norðan Þorbjarnar. Borholan er skáboruð í aust­ur, und­ir Grinda­vík­ur­veg og nær inn í jarðskorpuna í átt að Sundhnúkagígum.

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku, segir að borholan nái niður á allt að tveggja og hálfs tveggja kílómetra dýpi en hún sé ótengd vinnslunni sem stendur og að gasið hafi engin áhrif á framleiðsluna.

„Við getum ekki dregið neinar ályktanir af þessari mælingu í sjálfu sér. Það verður bara fylgst með þessu mjög gaumgæfilega og við gætum allrar varúðar í umgengni við þetta. Það er Veðurstofunnar að vinna úr þessum gögnum,“ segir Birna.

Virkjunin sloppið vel

Þrátt fyrir að hafa þurft að þola allmarga jarðskjálfta undanfarna daga hafa þeir ekki haft teljandi áhrif á starfsemi virkjunarinnar, að sögn Birnu.

„Við svo sem sjáum sprungur í veggjum eins og flestir sjá á þessum slóðum í dag. Það hefur hrunið úr loftum en enn sem komið er höfum við blessunarlega sloppið vel,“ segir hún.

„Það sem við höfum almennt gert er að gæta fyllsta öryggi við öll mannvirki í Svartsengi. Við erum meðvituð um þá hættu sem getur stafað af hinum ýmsu lofttegundum,“ bætir Birna við og á hún þar við um lofttegundir sem fylgja jarðhræringunum og þær tegundir sem tengjast starfsemi jarðvarmavirkjunar.

Hún bendir einnig á að orkuverinu í Svartsengi sé nú fjarstýrt frá Reykjanesvirkjun.

„Starfsfólkið okkar sem er að sinna framleiðslunni frá degi til dags hefur lyft algjöru grettistaki og hefur staðið vaktina. Það á mikið hrós skilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert