Kvikugas, eða brennisteinsdíoxíð, mældist í dag upp úr borholu í Svartsengi sem staðsett er rétt norðan Þorbjarnar. Borholan er skáboruð í austur undir Grindavíkurveg og nær inn í jarðskorpuna í átt að Sundhnúkagígum.
Greint er frá þessu í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Segir þar að endi borholunnar teygi sig því nálægt þeim stað í jarðskorpunni þar sem kvikugangurinn er talinn vera. Frekari mælingar verði gerðar á morgun en það að kvikugas mælist úr borholunni sé staðfesting á að kvika sé til staðar norðan Hagafells, eins og líkön hafa gefið til kynna.
Skjálftavirknin við kvikuganginn hefur haldist nokkuð stöðug milli daga. Klukkan 17 í dag höfðu um 1.300 jarðskjálftar mælst frá miðnætti, sá stærsti 2,6 að stærð og mældist hann við Hagafell laust fyrir klukkan fimm í nótt. Flestir skjálftanna voru undir tveimur að stærð og þéttasta virknin er við Hagafell.
„Aflögun tengd kvikuganginum mælist áfram þó hún hafi hægt örlítið á sér frá því í gær. Nýjustu líkönin sem reiknuð hafa verið út frá GPS-mælingum og gervitunglagögnum benda enn þá til þess að mesta gliðnunin á kvikuganginum sé norður af Grindavík nálægt Hagafelli. Ef kvika nær að brjóta sér leið til yfirborðs, er enn þá líklegast að það verði á því svæði.“
Tekið er fram að líkur á eldgosi séu enn taldar miklar.
„Áfram er fylgst með merkjum um grynnkandi smáskjálftavirkni og skyndilega gliðnun sem geta verið fyrirboðar þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs. Engin merki eru um slíkt.“