Í dag eru viðbragðsaðilar að vinna inni á mesta hættusvæði Grindavíkur. Til að tryggja öryggi viðbragsaðila og íbúa verður fjölmiðlafólki ekki hleypt inn fyrir lokunarpóstana.
Búið er að hafa samband við þá íbúa Grindavíkur sem eiga þess kost að fara inn í bæinn í dag til að bjarga verðmætum. Þeir einir fá að fara inn í bæinn sem aðgerðastjórnin í Reykjanesbæ hefur haft samband við. Íbúar fara inn í fylgd björgunarsveitarmanna.
Það er greinilegt að jarðhræringarnar við Grindavík vekja heimsathygli en mjög margir erlendir fjölmiðlamenn eru á svæðinu. Meðal annars eru miðlar frá Noregi, Bretlandi og Spáni á svæðinu sem og fjölmiðlamenn sem koma alla leiðina frá Japan. Hins vegar koma þeir allir að lokuðum dyrum og hafa ekki fengið að fara inn á svæðið.
Margir erlendir fjölmiðlamenn eru á svæðinu. Hins vegar koma þeir allir að lokuðum dyrum og hafa ekki fengið að fara inn á svæðið.
mbl.is/Eggert Jóhannesson
Til athugunar fyrir íbúa:
- Ekki fara ef þú þarft ekki nauðsynlega að fara.
- Aðeins verður leyfi fyrir einn aðila að fara inn á svæðið, fyrir hvert heimili.
- Skráið niður lista yfir það sem þið hyggist sækja áður en lagt er af stað.
- Munið eftir húslykli.
- Hafið búr fyrir gæludýr ef þörf er á.
- Hafið poka eða annað undir muni.
- Íbúar hafa stuttan tíma inni á heimilinu.
- Þau sem fara mega ekki vera með bráðaofnæmi fyrir dýrum því það verða gæludýr með í för í bakaleiðinni.
- Þetta er eingöngu til þess sækja mjög mikilvæga hluti s.s. gæludýr, lífsnauðsynleg lyf, hugsanlega vegabréf eða aðra ómissandi hluti fyrir heimilisfólk.
- Mjög mikilvægt er að allir sem koma að þessari aðgerð hlýði vandlega öllum fyrirmælum lögreglu sem stýrir þessari aðgerð og virði tímamörk.