Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Fannar Daníel Guðmundsson í átta ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps á veitingastaðnum Dubliners á mars á þessu ári og fyrir kynferðisbrot og frelsissviptingu í öðru máli sem átti sér stað árið 2022.
Dómur í málinu féll síðdegis í dag en Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, staðfesti niðurstöðuna í samtali við mbl.is. Ekki er búið að birta dóminn. Karl Ingi segir niðurstöðuna í takti við kröfur ákæruvaldsins í málinu.
Embætti héraðssaksóknara ákærði Fannar fyrir tilraun til manndráps á skemmtistaðnum Dubliner í mars með því að hafa farið þangað inn grímuklæddur og vopnaður hlaðinni afsagaðri haglabyssu og beint henni að þremur viðskiptavinum og barþjóni áður en hann hleypti af einu skoti rétt hjá fólkinu.
Í ákæru málsins kemur fram að Fannar hafi beint hlaðinni byssunni að fólkinu þar sem það var við barborð staðarins og svo án viðvörunar og fyrirvaralaust hleypt af einu skoti þannig að höglin höfnuðu í innréttingu staðarins og í áfengisflöskum rétt ofan og til hliðar við fólkið. Splundruðust flöskur og rigndi glerbrotum yfir fólkið sem sat við barborðið að því er fram kemur í ákærunni.
Þá segir að Fannar hafi falið byssuna með því að vefja hana í hvíta hettupeysu og haft hana í innkaupapoka þannig að gestir staðarins hafi ekki áttað sig á því að hann væri vopnaður þegar hann hleypti úr byssunni.
Aðalmeðferð í málinu fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði. Fannar kaus að gefa ekki skýrslu við upphaf aðalmeðferðarinnar. „Ég var svo grillaður á því á þessum tíma," sagði Fannar og vísaði þess í stað í skýrsluna sem lögreglan tók af honum eftir að hann var handtekinn, grunaður um verknaðinn.
Karl Ingi segir að ákveðið hafi verið að sameina tvö mál gegn Fannari sem var síðan dæmt í í dag. Hitt málið varðar kynferðisbrot og frelsissviptingu sem átti sér stað í mars 2022.