Fólkið fært í varðhald: Vegabréf og verðmæti tekin

„Þegar þau komu þarna út voru þau bara stöðvuð og meinað að fara á eigin vegum inn í landið. Sum halda því fram að þau hafi beinlínis verið látin skrifa undir plagg um að þau hafi framið landráð en við eigum svo sem eftir að fá staðfestingu á því hvað þau voru nákvæmlega látin skrifa undir. Það virðist mögulega vera sem þeim sé gert erfitt fyrir að fara aftur úr landi en vegabréf þeirra hafa verið tekin.“

Þetta segir Jón Sigurðsson, formaður félags talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd, í samtali við mbl.is. Hann segir að fólkið sem íslensk stjórnvöld sendi úr landi hafi verið fært í varðhald og virðist enn vera í varðhaldi.

Hundrað og átta­tíu ríkisborgarar Venesúela voru flutt­ir til heimalandsins með beinu flugi frá Íslandi í gær. Fólkið fór sjálfviljugt úr landi í kjöl­far þess að um­sókn­um þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi var synjað.

Miðlar er­lend­is hafa greint frá fólks­flutn­ing­un­um og kem­ur þar meðal annars fram að hóp­ur­inn hafi lent á Si­món Bolív­ar-alþjóðaflug­vell­in­um í Venesúela í gær­kvöldi.

Einræðisríki sem brýtur reglulega á hvers kyns réttindum

Jón segir að félagið hafi verið í sambandi við fólkið í gær en svo hafi farið að draga úr samskiptunum.

„Við fengum fullt af skilaboðum frá þessu fólki í gær og svo fór svolítið að draga úr því. Það virðist vera að í einhverjum tilfellum hafi símar verið gerðir upptækir en kannski þó ekki í öllum tilfellum. Það heyrist í það minnsta miklu minna frá fólkinu núna og í sumum heyrist ekki neitt lengur.“

Hann segir upplýsingar koma bæði beint frá fólkinu sem flutt var úr landi en einnig frá fólki sem er hér á landi og er í beinu sambandi við fólkið úti.

Venesúela er einræðisríki sem brýtur mjög reglulega á hvers kyns réttindum borgara sinna, að sögn Jóns.

Frá Si­món Bolív­ar-alþjóðaflug­vell­in­um í Venesúela í gær­kvöldi.
Frá Si­món Bolív­ar-alþjóðaflug­vell­in­um í Venesúela í gær­kvöldi. Ljósmynd/Aðsend

Kærunefndin skipti um skoðun í haust

Kær­u­nefnd út­lend­inga­mála birti úr­sk­urði í málum ein­stak­linga frá Venesúela í haust, þar sem Útlend­inga­stofn­un hafnaði um­sókn­um þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Kærunefndin staðfesti úrskurði stofn­un­ar­inn­ar í tveim­ur mál­anna. Þar komst nefndin að þeirri niður­stöðu, að þegar upplýs­ing­ar um Venesúela og frá­sagn­ir einstaklinganna væru virt­ar í heild, með hliðsjón af aðstæðum þeirra í Venesúela, hefðu þeir ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því al­var­leika­stigi að þeir hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í út­lend­ingalögum.

Þannig var fall­ist á með Útlend­inga­stofn­un að aðstæður viðkomandi í heimaríki þeirra Venesúela væru ekki með þeim hætti að þeim ætti að veita dval­ar­leyfi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða.

Segir Jón að sér hafi oft fundist í umfjöllun einblínt of mikið á einhverja fátæktarhlið þessa máls.

„Eins og þetta snúist bara um að fólk sé að flýgja einhverjar aðstæður í sambandi við takmarkaðan aðang að mat, vatni, rafmagni og fleiru.

Það sem ætti frekar að leiða til þess að fólk fái vernd hér á landi eru réttindi fólks, sem eru algjörlega virt að vettugi þarna í Venesúela. Fólkið var samstundis handtekið við komuna til landsins.“

Ferðastyrkur gerður upptækur

Íslensk yfirvöld greiddu fólkinu sem flutt var á brott ferðastyrk vegna sjálfviljugrar heimfarar þess. Jón segist hafa upplýsingar um að styrkurinn hafi verið gerður upptækur í það minnsta í einhverjum tilvikum, ásamt ýmsum öðrum verðmætum í eigu fólksins. Þá hafi fólki verið smalað óviljugu í rútur sem óku frá flugvellinum í lögreglufylgd.

„Um borð í rútunum voru vopnaðir lögreglumenn og myndir innan úr rútunum sýna vopnaða lögreglu tilkynna fólki að það standi frammi fyrir rannsókn sem muni taka á bilinu 24 til 48 klukkustundir.“

Jón segir að fólki hafi verið tilkynnt að ferðatöskur þeirra yrðu gerðar upptækar.

Þá segir hann að fljótlega eftir komuna í rúturnar virðist vera sem skilaboð frá fólkinu innan úr rútunum hafi hætt að berast. Hann segir að fólkið sem íslensk stjórnvöld sendi úr landi hafi verið fært í varðhald og virðist enn vera í varðhaldi.

„Það sem við höfum heyrt um aðstæðurnar í varðhaldinu er slæmt. Þar sé enginn matur og ekkert rafmagn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert