Kynnir frumvarp um stuðning við launafólk í Grindavík

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eyþór

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hyggst kynna frumvarp um stuðning við launafólk í Grindavík á ríkisstjórnarfundi á morgun. 

Um er að ræða frumvarp sem tryggir tímabundinn stuðning við launafólk í Grindavík, fyrst um sinn.

Guðmundur segir markmið stuðningsins að tryggja afkomu starfsfólks fyrirtækja í Grindavík, með því að auðvelda fyrirtækjum að geta greitt laun. 

Vernda ráðningarsamband atvinnurekenda og launafólks

Aðspurður segir hann frumvarpið þannig miða að þeim Grindvíkingum sem höfðu atvinnu í bænum, enda búið að loka bænum sem kemur í veg fyrir að fólk geti sinnt vinnu sinni. 

„Við erum að setja þetta úrræði inn til að tryggja að það fái greidd laun og stuðla að því að vernda ráðningasambandið á milli atvinnurekenda og launafólks.“ 

Hann segir að miðað verði við að stuðningurinn eigi við frá þeim tíma sem Grindavíkurbær var rýmdur. 

Leggur áherslu á að málið verði afgreitt hratt og vel

Guðmundur segist ekki eiga von á öðru en að frumvarpið verði samþykkt á ríkisstjórnarfundi á morgun. Hann kveðst leggja mjög mikla áherslu á að málið verði afgreitt hratt, svo hægt verði að taka það fyrir á Alþingi í upphafi næstu viku. 

„Ástæðan fyrir því að ég legg ríka áherslu á þetta, er auðvitað sú að þetta skiptir miklu máli til að draga úr óvissu hjá fólki og auka öryggistilfinningu þess. Afkoman er eitthvað sem líklega flestir hafa að sjálfsögðu og eðlilega mjög miklar áhyggjur af. Þannig að það er í mínum huga forgangsverkefni að koma þessu inn í þingið til þess að takast á við og afgreiða.“

Hann bindur vonir við að hægt verði að afgreiða frumvarpið tiltölulega hratt og vel á þinginu, en segir að auðvitað þurfi að fara yfir málið og gera það vel.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert