Létu villandi TikTok-myndskeið ekki stöðva sig

Kiara Flynn og Aron Keogh Cribbin koma frá Írlandi og …
Kiara Flynn og Aron Keogh Cribbin koma frá Írlandi og Norður-Írlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðamenn frá Írlandi og Norður-Írlandi segjast hafa séð mikið af misvísandi og ýktum upplýsingum um ástandið á Íslandi vegna jarðskjálfta og yfirvofandi eldgoss.

Þau pör sem blaðamaður ræddi við á flugvellinum í Keflavík segjast þó hafa aflað sér betri upplýsinga í fjölmiðlum og hjá ferðaskrifstofu og áttað sig á að öruggt væri að ferðast til Íslands. 

„Já, við sáum á TikTok að búið væri að rýma Grindavík og að fólk væri að fá að komast aftur inn í bæinn til að sækja eigur sínar. En Grindavík var hvort sem er ekki á planinu hjá okkur þannig að þetta skipti okkur litlu máli,“ segir Aron Keogh Cribbin frá Írlandi í samtali við blaðamann mbl.is á Keflavíkurflugvelli í dag. 

„Við tókum eftir að hlutirnir væru mjög ýktir á TikTok en við könnuðum málið sjálf í fjölmiðlum,“ bætir kona hans Kiara Flynn við. 

„Svo þegar starfsmaður hjá ferðaskrifstofunni sem við komum í gegnum sagði okkur að þetta væri allt í góðu þá vorum við mun rólegri og hættum að leita að fréttum um ástandið,“ segir Cribbin.

David Bennet var að koma til landsins með eiginkonu sinni.
David Bennet var að koma til landsins með eiginkonu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leit ekki svo illa út í flugvél

David og Jill Bennet voru einnig nýlent í Keflavík nú síðdegis og eru þau frá Norður-Írlandi. Þau taka undir það að hafa séð mjög ýkta mynd af stöðunni á TikTok en þau, líkt og Cribbin og Flynn öfluðu sér upplýsinga í gegnum fjölmiðla, ekki samfélagsmiðla. 

„Við flugum yfir Grindavík á leiðinni hingað og þetta leit ekki svo illa út séð úr flugvél,“ segir David. 

„Já, þetta var mun meira ýktara á samfélagsmiðlum, á TikTok til dæmis. Ég treysti á BBC, ITV og Guardian og þeir sögðu að vegurinn hefði farið í sundur og það væri búið að rýma. Ég las líka að þetta væri mesta jarðskjálftavirkni í 700 ár, en að það þýddi ekki að allt myndi springa á morgun,“ bætir hann við. 

Spurð hvort þau hefðu haft einhverjar áhyggjur af ferðalaginu til Íslands þegar fréttir bárust af neyðarstigi og rýmingu voru hjónin ekki sammála. David sagðist ekki hafa haft miklar áhyggjur en Jill var áhyggjufyllri. Það stoppaði þau þó ekki og hingað eru þau komin heilu og höldnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert