Vinnuflokkar frá HS Veitum fóru til Grindavíkur í morgun til að greina bilun sem átti sér stað í gær en stór hluti Grindavíkur hefur verið án rafmagns frá því síðdegis í gær.
„Það eru komnir menn frá okkur til Grindavíkur sem eru í bilanagreiningu. Við erum enn þá að greina stöðuna og á þessari stundu er óvíst hvort og hvernig verður hægt að leysa úr þessu. Við verðum vonandi með frekari upplýsingar seinna í dag,“ segir Sigrún Inga Ævarsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá HS Veitum, í samtali við mbl.is.
Sigrún Inga segir að sendur hafi verið lágmarks mannskapur á svæðið í samvinnu við almannavarnir í ljósi stöðunnar.