Rafmagn er aftur komið á

Rafmagn er aftur komið á austurhluta Grindavíkur.
Rafmagn er aftur komið á austurhluta Grindavíkur. Skjáskot úr vefmyndavél mbl.is á Þorbirni

Rafmagn komst aftur á austurhluta Grindavíkurbæjar á sjötta tímanum í dag. 

Raf­magnið fór af í aust­ur­hluta Grinda­vík­ur­bæj­ar um fimm­leytið í gær. Óvíst var hvort og hvenær hægt yrði að ráðast í viðgerðir, en vinnuflokkar á vegum HS Veitna fengu í morgun grænt ljós frá almannavörnum fyrir því að fara inn á svæðið og greina bilunina. 

Vel tókst að finna bilunina

Megin orsök bilunarinnar var slitinn rafstrengur í sprungunni sem liggur þvert í gegnum bæinn. Vel tókst að finna bilunina og lauk viðgerð klukkan 17.15, segir Sigrún Inga Ævarsdóttir, upp­lýs­inga­full­trúi HS Veitna.

Í tilkynningu frá HS Veitum segir að vinnuflokkar hafi jafnframt verið í annarri bilanaleit í dag og aðgerðum til að koma í veg fyrir mikinn leka sem varð vegna bilunar í hitaveitunni. Þeirri aðgerð lauk fyrir hádegi.  

Í báðum tilfellum er um að ræða slit á rafstreng og lögnum þar sem stóra sprungan liggur þvert í gegn um bæinn. Í ljósi þess að jarðsig og gliðnun halda áfram í Grindavík er ómögulegt að segja hvert framhaldið verður, segir í tilkynningunni. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert