Páll Erland, forstjóri HS Veitna, vonast til þess að rafmagn verði komið aftur á í stórum hluta Grindavíkur þegar viðgerð lýkur en vinnuflokkar á vegum fyrirtækisins hafa verið að störfum frá því snemma í morgun. Hann segir þó óvíst hverju viðgerðin muni skila.
Rafmagnið fór af í austurhluta Grindavíkurbæjar um fimmleytið í gær og þar er enn rafmagnslaust en eftir að grænt ljós kom frá almannavörnum í morgun hófst vinna við að greina bilanir sem orsaka rafmagnsleysið.
„Það gekk vel að finna það sem við teljum vera stærstu bilunina og viðgerð gengur vel. En vegna þess hversu kerfið er laskað víða um bæinn sökum jarðsigs og gliðnunar þá er óvíst hvernig þetta mun ganga og hverju viðgerðin muni skila,“ segir Páll við mbl.is.
Páll segir að búið sé að finna nokkrar bilanir en megin orsök fyrir því að svo stórt svæði fer út sé slitinn rafstrengur í sprungunni sem liggur þvert í gegnum bæinn.
„Það er austan megin við sprunguna þar sem er rafmagnslaus en þar slitnaði strengurinn. Það hafa líka orðið bilanir á búnaði í austurhluta bæjarins og við erum núna að reyna að gera við hvoru tveggja. Við vonumst til að það skili því að það komi rafmagn á stóran hluta bæjarins eftir það.“
Nú er búið að vera rafmagnslaust í næstum einn sólarhring. Hvað með afleiðingarnar?
„Það er erfitt að segja annað en það sem skapast af hefðbundnu rafmagnsleysi. Fólk er bæði búið að vera að bjarga verðmætum úr húsum sínum og að beiðni almannavarna var það beðið um að taka rafmagnstæki úr sambandi áður en það rýmdi hús sín. Við sendum út skilaboð til íbúa og fyrirtækja þegar rafmagnið fór af og ég geri ráð fyrir því að gripið hafi verið til ráðstafana og sumir hafa verið búnir að því áður.“
Páll segir að samhliða rafmagnsleysinu þá hafi heitavatnslokar gefið sig í morgun en það tókst að finna þá bilun og loka fyrir stóran leka á heitu vatni sem var í bænum. Heitt vatn er því til staðar í bænum.