Sagði þeim að íslenskan væri í hættu

Rökkvi Vésteinsson.
Rökkvi Vésteinsson. Ljósmynd/Aðsend

Núna er orðið ókeypis að læra íslensku með hjálp tungumálaforritsins LingQ. Ákveðið var að greina frá þessu í dag, á Degi íslenskrar tungu.

Rökkvi Vésteinsson, tölvunarfræðingur, leiðsögumaður og uppistandari, var maðurinn á bak við ákvörðun LingQ um að bæta íslensku við tungumálin sem hægt er að læra með forritinu. Hann lét ekki þar við sitja og barðist fyrir því að íslenskunámið yrði ókeypis í von um að fleiri áhugasamir myndu nota forritið.

Skjáskot af vef LingQ.

Rökkvi kveðst hafa orðið undrandi þegar Steve Kaufmann, stofnandi forritsins, ákvað að samþykkja tillöguna.

„Ég skrifaði þeim bréf og höfðaði til þeirra með hvað íslenskan væri í rauninni í hættu. Við sjáum það kannski ekkert beint að hún sé að deyja á morgun en mesta hættan er enskuvæðingin,” segir Rökkvi.

Erfitt fyrir innflytjendur

„Hin hættan er hversu mikið stökk það er fyrir innflytjendur að læra [íslensku]. Maður sér það oft á vinnustöðum, það er einn sem talar kannski ekki íslensku og þá er fundur á ensku í staðinn. Það er kannski einn krakki í vinahópnum í grunnskólanum sem er innflytjandi og talar ekki íslensku og þá skipta allir krakkarnir í ensku. Greyið krakkinn sem flytur hingað lærir aldrei íslensku. LingQ getur alveg hjálpað með þessa hluti,” bætir hann við.

Rökkvi segir leiðina til að verða góður í tungumálum að byrja bara að tala og halda áfram að byggja ofan á það. Hann nefnir að tungumálaforritið aðstoði notendur með aukinn orðaforða og styðji þannig við málnotkun þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert