Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann á sextugsaldri fyrir rangar sakargiftir. Maðurinn kom röngum tilkynningum til Neyðarlínunnar og barnaverndaryfirvalda sem leiddi til þess að bróðir hans var ranglega handtekinn grunaður um kynferðisbrot gagnvart eigin börnum.
Þá eru gerðar alls fimm einkaréttakröfur á hendur manninum sem hljóða samtals upp á átta milljónir kr.
Í ákærunni segir að höfða beri mál á hendur manninum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir rangar sakargiftir, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 8. febrúar 2020 með röngum tilkynningum til Neyðarlínu og Barnavendar Hafnarfjarðar leitast við að koma því til leiðar að annar maður, sem er bróðir hans, yrði að ósekju sakaður um refsiverðan verknað, sem leiddi til þess að lögregla handtók manninn sömu nótt og hóf rannsókn.
Tekin var skýrsla af bróðurnum sem var með réttarstöðu sakborning og könnunarviðtöl við tvær dætur mannsins af hálfu barnaverndar.
Lögreglan hætti svo rannsókn mólsins 23. nóvember 2020.
Í ákæru er greint frá því að maðurinn, sem er ákærður í málinu, hafi hringt í Neyðarlínuna og gefið upp falskt nafn. Hann hafi tilkynnt að bróðir hans hefði beitt stúlkurnar, sem eru á barnsaldri, kynferðislegu ofbeldi, þar í meðal nauðgun, og deilt myndefni af kynferðisbrotum gegn stúlkunum á alþjóðlegri vefsíðu.
Þá sendi hann tölvupóst á starfsmann Barnaverndar Hafnarfjarðar í kjölfar símtals til Neyðarlínu með nánari lýsingum á kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi, þar á meðal nauðgun og öðrum kynferðismökum bróðursins gegn dætrunum í félagi við fjóra aðra karlmenn á tveimur mismunandi myndböndum.