Segir nokkra daga þurfa til viðbótar

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að vel hafi gengið í dag, en íbúar á mesta hættusvæði Grindavíkur hafa fengið að að vitja eigna sinna og sækja mikilvægustu eigur. Úlfar á von á að það muni taka nokkra daga til viðbótar að hleypa fólki inn á svæðið.

Úlfar segir í samtali við mbl.is að um tímafrekt verkefni sé að ræða, en björgunarsveitarfólk hefur fylgt íbúum inn á svæðið í dag. Er það inn á svæði sem hefur verið skilgreint sem rautt svæði.Hann segist nokkuð ánægður með hvernig til hafi tekist.

Spurður hvað megi eiga von á að það muni taka langan tíma að hleypa fólki inn á svæðið til að sækja eigur sínar segir Úlfar að búið sé við að það muni taka nokkra daga til viðbótar. Segir hann að nú standi yfir vinna við að hleypa fólki á fjölmennasta íbúðasvæði bæjarins þar sem 2/3 hlutar íbúa búa.

Gerir ekki athugasemdir við gagnrýni íbúa

Eitthvað hefur borið á óþolinmæði íbúa sem hafa kvartað yfir skipulagi við að hleypa íbúum inn á svæðið. Spurður um þessa gagnrýni segist Úlfar skilja hana. „Geri engar athugasemdir við það. Fólk er í geðshræringu, þetta eru miklir atburðir, hamfarir og það er mjög eðlilegt að einhverjir séu ósáttir við það sem viðbragðsaðilar eru að gera.“

Hann segir þó allt vera að slípast til varðandi aðgerðir og segist ánægður með aðgerðir lögreglunnar fram að þessu.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert