Skjálftatíðni eykst lítillega

Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem …
Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem gos þykir einna líklegast. mbl.is/Eggert Johannesson

Tæplega 1.500 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti og tíðni skjálfta hefur færst örlítið í aukana síðasta sólarhring. Enn virðist mesta virknin vera við Hagafell.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúrvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir við mbl.is að á seinasta sólarhring hafi mælst um 80-100 skjálftar á klukkustund, svipað og mældist á mánudag og aukning frá síðustu sólarhringum.

„Það er einhver breytileiki í þessu,“ segir hún. „En þetta er töluvert minna en á föstudaginn, þegar allt fór af stað.“

Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni …
Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni og í suð-suðvestur undir Grindavík. Kort/mbl.is

Sigið hægir á sér

Salóme segir að virkninni í kvikuganginum sé dreift nokkuð jafnt á svæðið en virknin sé aftur á móti mest við Hagafell, þar sem gliðnun undir yfirborði er einnig talin mest.

Engin skjálfti yfir 3 að stærð hefur riðið yfir síðasta sólarhring en stærsti skjálftinn í dag var að stærðinni 2,9 klukkan 13.20 við Hagafell.

Salóme segir að það sé erfitt að segja til um hvar þenslan sé mest, þar sem sigdalur hefur myndast á svæðinu. Landið sígi um 2-4 sentimetrar á sólarhring, samkvæmt mælum á svæðinu.

Land hef­ur nú sigið um allt að 25 senti­metra inn­an sig­dals­ins sem tók að mynd­ast eða dýpkaði veru­lega á föstu­dag.

„Það hægir smá á þessu en það eru samt að mælast greinilegar hreyfingar þarna,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert