Svona er hraun talið myndu renna

Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni …
Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni og í suð-suðvestur undir Grindavík. Kort/mbl.is

Ef glóandi hraun kæmi upp á yfirborðið milli Sundhnúks og Hagafells, gæti það runnið til vesturs í átt að Svartsengi, en einnig til austurs og suðausturs og þar með í átt að Grindavík.

Það sama gerðist ef hraun rynni til suðurs meðfram Grindavíkurvegi.

Þetta kemur fram í skýrslu sem tekin var saman í sumar á Veðurstofu Íslands og er rifjuð upp í svari á vísindavef Háskóla Íslands í dag. Þar er hætta á Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns metin með tilliti til hrauna-, gasmengunar- og gjóskufallsvár.

Rauðu línurnar afmarka svæði fyrir gos af mismunandi stærð.
Rauðu línurnar afmarka svæði fyrir gos af mismunandi stærð. Kort/Veðurstofa Íslands

Kvika talin streyma upp við Sundhnúk

Eins og fjallað hefur verið um á mbl.is hefur athygli jarðvísindamanna að undanförnu beinst í auknum mæli að Sundhnúki og Hagafelli. Kvika er talin streyma upp af miklu dýpi við Sundhnúk og við Hagafell er jafnvel talið líklegast að gjósa muni, komi til þess.

„Ef gýs nærri Þorbirni getur það vissulega gerst að hraun rynni inn í Grindavík. Það fer þó eftir hvar gossprunga er staðsett hversu útsettur bærinn er fyrir hraunrennsli,“ segir á vísindavefnum í dag.

Kort úr skýrslunni fylgir, þar sem landfræðileg afmörkun gossprungna sem gætu veitt hrauni inn í Grindavík og Þórkötlustaðahverfi er sýnd. Þar er átt við hraunflæði meðalstórra (0,3 rúmkílómetra) eða lítilla (0,02 rúmkílómetra) hraungosa.

Til samanburðar var rúmmál fyrsta gossins í Fagradalsfjalli 0,15 rúmkílómetrar.

Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem …
Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem gos þykir einna líklegast. mbl.is/Eggert Johannesson

Möguleikarnir dregnir saman

„Í stuttu máli má draga möguleikana saman á eftirfarandi hátt: Ef gýs norðan eða nokkuð vestan Þorbjarnar, færi hraun einkum til suðurs og suðvesturs og gæti náð að sjó vestan Grindavíkur. Grindavík sjálf væri ekki í beinni hættu.

Ef gos kæmi upp á eða nærri Sundhnúkasprungunni, þar sem síðast gaus fyrir um 2.000 árum, myndi gos á norðurhluta valda hraunrennsli til vesturs í átt að Svartsengi og Bláa lóninu auk þess að leita til austurs.

Hraun sem kæmi upp milli Sundhnúks og Hagafells gæti sent hraun til vesturs í átt að Svartsengi, til austurs og suðausturs og þar með í átt að Grindavík, og það sama gerðist ef hraun færi til suðurs meðfram Grindavíkurvegi. Gos sunnan þess svæðis, myndi senda hraun í átt að Grindavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert