Þær bera út blöðin og borga ferðalagið

Frá vinstri: Arnheiður Ísleif Ólafsdóttir, Hafrós Myrra Eyland Hafsteinsdóttir, Ásdís …
Frá vinstri: Arnheiður Ísleif Ólafsdóttir, Hafrós Myrra Eyland Hafsteinsdóttir, Ásdís Freyja Georgsdóttir og Inga Lea Ingadóttir, hér heima í Hafnarfirði. Þær eru tilbúnar með töskur, kerru og Morgunblaðið. mbl.is/Sigurður Bogi

Körfuboltastelpur úr Haukum í Hafnarfirði hafa að undanförnu gert gott mót í störfum fyrir Póstdreifingu ehf. Fyrirtækið sinnir meðal annars dreifingu á Morgunblaðinu, sem á fimmtudögum í viku hverri er í fjöldreifingu á höfuðborgarsvæðinu. Einmitt þá, þegar stór hverfi og tugir þúsunda húsa eru undir, er þörf á vinnufúsu fólki til þess að dreifa blöðum og þar hafa margir séð sér tækifæri til að grípa góðar aukatekjur.

Haukastelpurnar, sem eru fjórar talsins, stimpluðu sig inn hjá Póstdreifingu um síðustu mánaðamót en ein þeirra hafði þá unnið sem blaðberi frá því í sumar. Sameiginlega dreifa þær Morgunblaðinu og fjölpósti, 500-700 blöðum, í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ. Þá taka þær fasta hverfið sitt fyrir skóla og afleysingar fastra blaðbera í forföllum eftir skóla.

Blaðberarnir knáu sem dreifa blöðum í Áslandshverfi í Hafnarfirði eru Arnheiður Ísleif Ólafsdóttir, Hafrós Myrra Eyland Hafsteinsdóttir, Ásdís Freyja Georgsdóttir og Inga Lea Ingadóttir; allar í 9. bekk í Áslandsskóla og Hraunvallaskóla.

„Mér finnst bara hressandi að fara út eldsnemma á fimmtudagsmorgnum og bera út Morgunblaðið sem þarf að vera lokið áður en skólinn byrjar,“ segir Hafrós Myrra Eyland Hafsteinsdóttir blaðberi. Hún og vinkonur hennar æfa saman körfubolta í 9. flokki hjá Haukum með þjálfarann Helenu Sverrisdóttur. Þetta er efnilegur hópur sem vann Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta kvenna í 8. flokki síðasta vor, sem aftur gaf þeim þátttökurétt á stórmótinu Scania Cup sem haldið verður í Stokkhólmi í Svíþjóð um páskana á næsta ári. Ljóst er að þátttaka þar kostar sitt og því þarf að hafa alla anga úti til að ná krónum í kassann. Til þess hafa stelpurnar selt lakkrís, dagatal og fisk – og nú sinna þær blaðburðinum, sem er vel launuð vinna og fín hreyfing.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert