Verðmætabjörgun heldur líkast til áfram á morgun

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir íbúa Grindavíkur aftur fá tækifæri á að fara inn á heimili sín á morgun. Það sé þó háð því að aðstæður verði svipaðar og þær voru í dag.

Verðmætabjörgun hófst um klukkan tíu í morgun og var farið inn á um 90 heimili í dag, segir Úlfar, sem gerir ráð fyrir að unnið verði eftir sama fyrirkomulagi á morgun. 

„Ef að ekkert breytist, ef aðstæður verða svipaðar á morgun, þá gerum við ráð fyrir sama fyrirkomulagi og var í dag,“ segir Úlfar.  

Því verður haft samband við þá íbúa Grindavíkur sem eiga þess kost að fara inn í bæinn á morgun til að bjarga verðmætum. 

Þeir ein­ir fá því að fara inn í bæ­inn, sem aðgerðastjórn­in í Reykja­nes­bæ hef­ur haft sam­band við, og fara íbúar inn í fylgd björg­un­ar­sveit­ar­manna.

Lögreglan með sólahringsvakt í Grindavík

Spurður hvort lögreglan hafi fengið tilkynningar um einstaklinga á vappi um bæinn á nóttunni, segist Úlfar ekki vita til þess. 

Hann segir lögregluna þó með sólahringsvakt á svæðinu og bregðist við því sem bregðast þarf við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert