Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir að málefni Grindvíkinga séu að sjálfsögðu allt um lykjandi á fundum ríkistjórnarinnar þessa dagana.
Guðmundur Ingi kynnti frumvarp sitt um stuðning við launafólk í Grindavík á ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í dag en þar var farið vítt og breitt yfir stöðu mála vegna jarðhræringanna í og við Grindavík.
Guðmundur segir að það ríki full samstaða um frumvarpið það innan stjórnarinnar. Það mun fara fyrir þingflokkanna og hann vonast til þess að það verði hægt að dreifa frumvarpinu til Alþingis í dag eða á morgun.
Tilkynning um frumvarpið á vef Stjórnarráðsins.
„Ég vonast til þess að við náum að klára að afgreiða frumvarpið á Alþingi í næstu viku,“ segir Guðmundur. Spurður hvað sé helst í frumvarpinu sem komi Grindvíkingum til góða segir hann:
„Þarna er um að ræða stuðning ríkisins að ákveðnu hámarki til þess að hægt sé að greiða fólki laun. Þetta gildir út febrúar og vonandi skýrast hlutir á þessum tíma sem framundan er. Þetta er stuðningur að hámarki 633 þúsund krónur og til viðbótar kemur 11,5% framlag í lífeyrissjóð sem fer þá upp í launagreiðslur atvinnurekenda,“ segir Guðmundur Ingi en stuðningurinn beinist að því fólki sem starfar í Grindavík.
Hann segist vonast til þess að atvinnurekendur greiði laun áfram með þeim stuðningi þeir fá. Hann telur það mjög mikilvægt og að þetta sé hugsað til að draga úr áhyggjum fólks af afkomu sinni og mæta þessu miklu áfalli sem fólk í Grindavík hefur orðið fyrir.
Er ríkisstjórnin með fleiri úrræði í bígerð gagnvart fólkinu í Grindavík?
„Já við erum meðal annars að vinna náið með sveitarfélögunum hvað varðar húsnæðismál. Það er mjög brýnn þáttur og það er búið að vera vinna að þessu alla vikuna. Við höfum verið að aðstoða Grindavíkurbæ við að finna húsnæði þótt bæjaryfirvöld séu með þann bolta að koma fólki í húsnæði. Nú þegar er fólk búið að koma sér fyrir í 100 íbúðum og það er bæði verið að horfa til íbúða sem stéttarfélög eiga, það er verið að horfa til íbúða sem eru tilbúnar til afhendingar og síðan er verið að horfa til lengri tíma hvað hægt sér að gera,“ segir Guðmundur.
Hann segir algjört grundvallaratriði að hægt sé að ná hratt og fljótt utan utan um þessi mál og eftir kynningu innviðaráðherra í morgun og eftir samtal hans við bæjarstjórann í Grindavík þá sé búið að ná vel utan um þessi mál.
„Við munum væntanlega að sjá á næstu dögum að hlutirnir fari að gerast og að fólk fái húsnæði. Það er auðvitað ein af grunnþörfum mannsins að hafa skjól og fólk getur ekki lengi verið inni hjá vinum og ættingjum.“