Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur telur að ef af eldgosi verður á næstu dögum muni það verða úti í sjó, suðvestur af Grindavík. Hann telur þó að þrýstingur kvikunnar sé ekki nægilegur til að hún komi upp á yfirborðið að þessu sinni.
Segir hann kvikuna svo eðlisþunga og hún muni því frekar flæða til hliðar en upp á yfirborðið.
„Hún [kvikan] vill bara fara í syllur eða ganga og við vitum að það er gangur þarna undir. Hann nær niður í 8 km og efri parturinn af honum er kannski kominn í hálfan kílómetra eða einn kílómetra frá yfirborði. Þessi gangur myndi helst vilja fara til hliðar. Hann á leið í gegnum sprungurnar sem urðu í fyrri gosum,“ segir hann.
„Ef gangurinn er virkur og er að mjaka sér til suðurs – við sjáum að það eru skjálftar sem ná alveg undir hafið, rétt fyrir sunnan Grindavík – væri eðlilegast ef hún myndi renna til hliðar og út í þetta kerfi suðvestan við bæinn,“ segir hann og bætir við að þannig myndi ný eyja myndast sunnan Grindavíkur.
Haraldur velti einmitt þessum kvikuhreyfingum fyrir sér á bloggi sínu um liðna helgi og varpaði upp þeirri spurningu um hvað eyjan ætti að heita.
Eldfjallafræðingurinn vestur um höf skoðaði í vikunni nýlegar loftmyndir af Grindavík og rak þar augun í tvær sprungur sem liggja samsíða rétt vestur af Grindavík. Eru um 200 metrar á milli sprungnanna. Þá skoðaði hann einnig eldri loftmyndir sem sýna sprungurnar þar sem íbúabyggð er nú.
„Við sjáum það á loftmyndum ameríska hersins frá 1954 og þar er þetta greinilegt. En hreppstjórinn hefur ekkert verið að velta þessu fyrir sér á sínum tíma. Þetta voru bara gamlar sprungur og engin ástæða fyrir þá að vera velta því fyrir sér. Það var bara byggt ofan á þetta. Svona var bara hugarfarið. En núna er þetta dálítið meira vandamál,“ segir hann.
Hann segir að kvika muni ekkert endilega koma upp þar, enda sé ekki hægt að ganga út frá því að kvika komi upp um allar sprungur sem myndast.