Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir erfitt að meta framhaldið á Reykjanesskaga. Enn séu allir möguleikar opnir og óljóst hvaða möguleiki verði ofan á, hvort eldgos verði eða ekki.
Jarðhræringar á Reykjanesskaga hafa verið tíðar undanfarin þrjú ár. Fimm sinnum hafa gangar lagt af stað frá kvikuhólfi með tilheyrandi skjálftahrinum, en einungis þrír þeirra hafa náð til yfirborðs, að sögn Páls. Enn er óljóst með þann fimmta.
Aðspurður segist Páll reyna að forðast það að segja til um framhaldið. Enn séu uppi þessar sömu sviðsmyndir, en engin gögn fyrir hendi sem nýtist til að vega sviðsmyndirnar hverjar á móti annarri.
„Ég vil ekki gefa nein tölugildi, ég held að það sé alveg út í bláinn að vera með það.“
Páll segir það yfirleitt hafa tekið nokkurn tíma fyrir gangana á Reykjanesskaga að ná til yfirborðs, þá nái sumir ekki upp til yfirborðs.
Hann tekur sem dæmi að þegar fyrst gaus við Fagradalsfjall, í Geldingadölum, hafi það tekið kvikuna rúmar þrjár vikur að ná til yfirborðs.
„Núna er þetta á öðrum stað og gangurinn hefur bara verið á ferðinni í nokkra daga, eða síðan á föstudag. Það eru bara komnir sex dagar,“ segir Páll og bætir við:
„En þá er líka þess að geta að þetta eru lengstu gildi sem við höfum séð. Þetta er náttúrulega ekki í fyrsta skipti sem við sjáum ganga fara af stað og leiða til eldgosa og það hefur yfirleitt tekið miklu styttri tíma. Þannig að þessir sem hafa verið á Reykjanesi hafa verið óvenju lengi miðað við aðra ganga.“
Í því samhengi nefnir hann að þegar gaus í Kröflu þá hafi það gerst tuttugu sinnum að gangar lögðu af stað frá kvikuhólfinu. Einungis níu þeirra náðu þó til yfirborðs á meðan hinir komust ekki alla leið.
„Þeir gangar sem náðu til yfirborðs gerðu það yfirleitt á innan við sólarhring,“ segir Páll og bætir við:
„En Fyrsti gangurinn í Kröflu sem fór 1975 hann var þrjá mánuði á leiðinni og náði aldrei upp. Annar sem að fór í janúar 1978 hann var þrjár vikur og náði aldrei upp. Þannig að reynslan er á ýmsa vegu í þessu.“
Þannig að þú ert ekkert að spá fyrir um hvort það verði gos eða ekki?
„Nei, ég held að þá séum við bara að segja meira en við vitum.“
En hvers vegna heldur þú að þetta taki lengri tíma þarna heldur en til dæmis í Kröflu?
„Þetta er eitthvað sem við eigum eftir að rannsaka betur. Reyna að láta okkur detta eitthvað skynsamlegt í hug um þetta, við erum bara að safna í reynslubankann. Svo kannski einn góðan veðurdag fáum við einhverjar brilljant hugmyndir til þess að skýra þetta út. En þær liggja nú ekki fyrir ennþá. Þetta er endalaust fóður fyrir vísindamenn framtíðarinnar.“