Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag áframhaldandi varðhald yfir fimm ungum mönnum í tengslum við skotárás við Silfratjörn í Úlfarsárdal í upphafi mánaðarins. Féllst dómstóllinn þar með á kröfu lögreglunnar sem hafði farið fram á áframhaldandi varðhald yfir öllum fimm.
Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að fimmmenningarnir séu úrskurðaðir í fimm daga varðhald, eða til miðvikudagsins 22. nóvember á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Upphaflega voru sjö ungir menn handteknir í tengslum við málið en sex þeirra voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald sem síðan hefur verið framlengt. Síðasta föstudag var einum mannanna sleppt en rannsóknarhagsmunir stóðu ekki lengur til að halda honum í gæsluvarðhaldi.
Í árásinni varð meðal annars Gabríel Douane Boam fyrir skoti, en hann hefur hlotið dóma fyrir ofbeldisbrot. Var hann á síðasta ári dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir þátt sinn í hnífaárás í Borgarholtsskóla og þá hefur hann tvisvar sinnum fengið dóma fyrir líkamárás.
Hann komst í fréttirnar í apríl á síðasta ári þegar honum tókst að sleppa frá lögreglu þegar átti að flytja hann úr héraðsdómi Reykjavíkur. Hann fannst þremur dögum síðar.