Magnús Már Jakobsson, öryggis- og mannauðsstjóri útgerðarfélagsins Þorbjarnar hf. í Grindavík, hafði veg og vanda af því að leiðbeina erlendu vertíðarstarfsfólki fyrirtækisins vegna rýmingarinnar þar í bænum á föstudaginn sem allt fór á besta veg. Magnús er brottfluttur Bolvíkingur en hefur búið lengi í Grindavík og kveðst stoltur af krafti og áræðni bæjarbúa sem láti sér fátt fyrir brjósti brenna.
„Þegar þetta kemur allt upp er það mitt hlutverk að hugsa um erlenda starfsfólkið, þetta eru kannski þrjátíu manns í verbúðinni en nokkrir voru farnir áður en ég kom en þetta gekk allt saman svakalega vel hjá þeim,“ segir öryggisstjórinn frá.
„Það má segja að ég sé hreinn sveinn í jarðskjálftum,“ segir Magnús glettinn, „þegar þessi hrina byrjar ræða eigendur fyrirtækisins og forstjórinn við mig og ákveðið var að mitt hlutverk yrði að búa erlenda starfsfólkið undir þessa atburði og það sem gæti komið upp. Svo var bara farið yfir hlutina og ákveðið hvernig brugðist yrði við í mismunandi aðstæðum en ég var líka búinn að taka einkaviðtöl við hvern og einn og ræða við fólk hvert það færi ef allt færi illa og svo voru þau búin að raða sér niður þegar ég mætti klukkan átta um kvöldið. Þau voru komin út og tilbúin,“ segir Magnús frá.
Hann kveður stjórnendur Þorbjarnar ákaflega samfélagslega þenkjandi og vel hlúð að mannskapnum. „Ef ég á að lýsa andrúmsloftinu, hvað á ég að segja, ég er búinn að búa í Grindavík síðan 1995, flutti þá inn á tengdó þegar ég byrjaði með konunni eftir snjóflóðið í Súðavík. Það er bara eitthvað við Grindavík sem er rosalega flott, svo mikill samhugur og samvinna, þetta er svo kraftmikið samfélag og það þarf enginn að fara að segja mér að við séum ekki að fara að flytja þarna aftur. Í versta falli gerum við bara eins og Súðvíkingar og flytjum bæinn,“ segir Magnús og bjartsýnin leiftrar af hverju orði.
Magnús sá um öryggismál í Bláa lóninu í sautján ár og var verkalýðsformaður í sjö ár áður en hann hóf störf hjá Þorbirni. „Íþróttaandinn í bænum er svo sterkur, ég hef aldrei fundið annan eins kraft, hann gæti mögulega verið í Vestmannaeyjum en varla annars staðar. Ég er Vestfirðingur sjálfur og ég ætla ekki að lasta Vestfirðinga, mér þykir rosalega vænt um þá en passa bara ekki inn þar sjálfur,“ segir hann frá.
Hann segir erlenda starfsfólkið hjá Þorbirni flest ef ekki allt hafa komið sér inn einhvers staðar, hjá vinum, ættingjum eða annars staðar. Hjálpsemin berist hvaðanæva. Magnús lætur þó ekki af lofi sínu í garð Grindvíkinga og víkur að bæjarstjóra og jafnvel fulltrúum hins geistlega.
„Bæjarstjórinn okkar hefur staðið sig rosalega vel og presturinn okkar. Auðvitað eru hnökrar á öllu en heildarmyndin er rosalega flott. Grindavík verður alltaf gul og blá og það mun ekkert brjóta okkur,“ segir Magnús Már Jakobsson að lokum, stoltur af sveitungum sínum þegar skórinn kreppir.