Kallar eftir skýrum aðgerðum fyrir Grindvíkinga

Kristín Linda, sálfræðingur og íbúi í Grindavík, kallar eftir því …
Kristín Linda, sálfræðingur og íbúi í Grindavík, kallar eftir því að Grindvíkingu verði send skýr svör frá stjórnvöldum og stærri fyrirtækjum. Samsett mynd

Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur og íbúi í Grindavík, kallar eftir því að stjórnvöld stígi inn í og veiti búsetustyrk til þeirra sem ekki mega búa á heimilum sínum í Grindavík.

Jafnframt að sett verði neyðarlög á bankana um frystingu húsnæðislána, í þeirri upphæð sem þau stóðu þegar bærinn var rýmdur. Auk þess að stóru fyrirtækin, sem þjónusta heimilin í landinu, felli niður þau gjöld sem fylgja því að búa á heimili, á meðan óvissuástand ríkir í Grindavík. 

Vika er liðin síðan Grindavíkurbær var rýmdur og Grindvíkingum bannað að búa á heimilum sínum. Kristín segir Grindvíkinga vera í örvæntingu frá því eldsnemma á morgnana og fram á nótt, að reyna að finna húsnæði, í algjörri óvissu um hvort það geti greitt leigu eða ekki. 

Kallar eftir búsetustyrk fyrir Grindvíkinga

„Vegna náttúruhamfara er staðan þannig að það er algjörlega bannað fyrir íbúa Grindavíkur að búa á eigin heimilum og við skiljum það alveg,“ segir Kristín. Á sama tíma bíða Grindvíkingar í von og ótta eftir upplýsingum um hvort þeir þurfi að greiða hita og rafmagnsreikninga, vexti og verðbætur, auk fasteignagjalda af húsnæði sínu í Grindavík, segir hún.  

„Til þess að fólk geti skuldbundið sig í tímabundnu húsnæði þá verður ríkisvaldið að stíga inn í og veita þessum 1.200 heimilum í Grindavík, þar sem bannað er að búa, búsetustyrk. Algjörlega óháð því hvar fólkið finnur sér búsetu,“ segir Kristín, sem segir mikilvægt að styrknum verði komið á fyrir mánaðamót. 

Hún ítrekar mikilvægi þess að styrkurinn verði veittur óháð því hvar fólk finni sér búsetu, enda auki það á ótta og óvissu fólks að þurfa að uppfylla viss skilyrði til þess að fá búsetustyrk. Jafnframt segir hún ótækt að fólk sé á hrakhólum á milli sveitarfélaga, jafnvel með börnin sín, til að elta það húsnæði sem Grindvíkingum hefur verið boðið endurgjaldslaust. 

Frá Grindavík í dag.
Frá Grindavík í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Núna erum við flóttamenn frá eigin heimilum“

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að fólk getur ekki borgað af húsnæðislánunum sínum og öll sín gjöld, auk þess að leigja á frjálsum markaði. Þess vegna tel ég þetta úrræði nauðsynlegt. Núna erum við flóttamenn frá eigin heimilum og við þurfum búsetustyrk,“ segir Kristín og bætir við að án styrksins séu Grindvíkingar ekki samkeppnisfærir um að geta leigt sér húsnæði og greitt fyrir. 

Hún segist finna fyrir mikilli samkennd hjá þjóðinni og að Grindvíkingar séu að fá allskonar skilaboð frá einstaklingum sem vilja bjóða fram aðstoð sína og allt mögulegt á endurgjalds. Hún kveðst því fullviss um að þjóðin myndi samþykkja það að Grindvíkingar fengju búsetustyrk frá ríkinu. 

Stórfyrirtækin afnemi sín gjöld fyrir Grindvíkinga

Þetta er þó ekki það eina sem brennur á Kristínu því hún kallar einnig eftir því að stóru fyrirtækin í landinu. Sem þjónusta heimilin um orku, rafmagn, hita, net og síma, afnemi sín gjöld fyrir Grindvíkinga á meðan þeim er bannað að búa á heimilum sínum. 

„Hví í ósköpunum stíga þau ekki fram og segja bara strax: „Þið munuð ekki þurfa að greiða þau gjöld sem fylgja því að búa á heimili, á meðan þið getið ekki búið á heimilum ykkar.“ Þetta eru fyrirtæki sem að skila arði hvert einasta ár,“ segir Kristín og bætir við:

„Mér finnst sérkennilegt að lítil fyrirtæki og fjöldi einstaklinga, eru á þessari viku búin að stíga fram og bjóða okkur allt mögulegt ókeypis, en þessi stóru fyrirtæki sem að dreifa og selja rafmagn og hita, séu enn ekki búin að stíga fram.“

Frá Grindavík í dag.
Frá Grindavík í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grindavíkurbær þarf „að stíga fram og segja eitthvað við fólkið“

Á sama hátt kallar Kristín eftir því að Grindavíkurbær felli niður fasteignagjöld. Hún segist átta sig á því að stjórnsýsla Grindavíkurbæjar hafi í mörg horn að líta um þessar mundir en segir að „þeir þurfa samt líka að stíga fram og segja eitthvað við fólkið.“

Að auki kallar Kristín eftir því að ríkisstjórnin setji neyðarlög á fjármálastofnanir. Neyðarlög sem segi til um að fjármálastofnanir verði að frysta þau lán sem hvíla á heimilum Grindvíkinga, í þeirri upphæð sem lánin stóðu í þegar heimilin voru rýmd á föstudag.

„Það er náttúruvá og neyð uppi hjá þessum 1.200 heimilum“

Hún segir Grindvíkinga vita að þeir geti hringt í bankana og beðið um frystingu lána, en það þýði þó að ofan á lánin hlaðast vextir og verðtrygging. 

„Það er náttúruvá og neyð uppi hjá þessum 1.200 heimilum. Það eru allir Grindvíkingar í lífróðri núna að reyna að skaffa gaffla og skeiðar til að borða með og dýnur til að sofa á.“ 

„Þessir stóru aðilar, stjórnvöld, orkufyrirtæki og bankar, verða að stíga fram fyrir mánaðamótin. Því Grindvíkingar eru eftir þessa fyrstu viku sligaðir af þreytu. Allir að reyna að berjast fyrir sig og fjölskyldu sína, til að reyna að komast af.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert