Miklar líkur á eldgosi og líklegast við Hagafell

Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem …
Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem gos þykir einna líklegast. mbl.is/Eggert Johannesson

Skjálftavirkni tengd kvikuganginum sem myndaðist fyrir um viku síðan helst nokkuð stöðug frá því í gær. Alls hafa um 2.000 skjálftar mælst síðasta sólarhringinn og er mesta virknin á svæðinu norður af Hagafelli að Sundhnúkagígum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Mest er um smáskjálfta undir 1 að stærð, en í morgun kl. 6.35 mældist skjálfti við Hagafell sem var 3,0 að stærð, eins og mbl.is greindi frá.

Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni …
Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni og í suð-suðvestur undir Grindavík. Kort/mbl.is

Mesta gliðnunin nálægt Hagafelli

„Samkvæmt GPS-mælum heldur aflögun áfram en með minnkandi hraða,“ segir í tilkynningunni.

Tekið er fram að nýjustu líkön, reiknuð út frá GPS-mælingum og gervitunglagögnum. bendi enn til þess að mesta gliðnunin á kvikuganginum sé norður af Grindavík nálægt Hagafelli.

Ef kvika nái að brjóta sér leið til yfirborðs, sé því enn líklegast að það verði á því svæði.

„Út frá samtúlkun á nýjustu gögnum og útreikningum með líkönum eru áfram eru taldar miklar líkur á eldgosi og mestar líkur eru á að það eigi upptök norðan Grindavíkur nálægt Hagafelli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert