Rannsaka mögulegt mansal tengt matvælalagernum

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir ekki …
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir ekki endilega vera um að ræða mansal þó fólk búi við slæmar aðstæður en slíkt sé meðal annars undir við svona rannsókn. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Heilbriðgiseftirlit Reykjavíkur

Lögregla hefur til rannsóknar málefni Vy-þrifa ehf. sem hélt úti stórum matvælalager við óheilnæmar aðstæður í Sóltúni og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafði til rannsóknar.

Heil­brigðis­eft­ir­litið kærði fyrirtækið til lög­reglu vegna málsins.

Ekki endilega mansal þó fólk búi við slæmar aðstæður

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir það við mbl.is.

Grímur segir að lögregla hafi til rannsóknar alla anga málsins.

„Við erum búin að fá þessa skýrslu og erum með til skoðunar það sem kemur þar fram í öllum liðum og þar með talið hvort það kunni að vera að þarna hafi fólk hafst við.“

Er grunur uppi um mansal?

„Slíkt ákvæði er undir við rannsóknina miðað við þessar upplýsingar sem við höfum. Það er eins og það hafi verið fólk á þessum lager. Við auðvitað rannsökum hvort það geti verið um mansal að ræða eða einhvers konar undirboð á vinnumarkaði.

Það er ekki endilega þannig þó fólk búi við slæmar aðstæður að um sé að ræða mansal en slíkt er meðal annars undir við svona rannsókn. Ég ítreka að það er bara grunur sem verður skoðaður.“

Þú segir undirboð á vinnumarkaði. Átt þú þá við einhvers konar nútíma þrælahald?

„Það voru ekki mín orð.“

Rannsakar alla anga málsins

Lögregla hefur til rannsóknar alla anga málsins að sögn Gríms. Þannig segir hann að ef það sé þannig að þessi geymsla á matvælum hafi verið með refsiverðum hætti þá sé einnig verið að skoða það.

„Þegar stjórnvöld senda okkur svona tilkynningar þá skoðum við hvort geti verið um að ræða refsiverða háttsemi og ef það er okkar mat að grunur sé um slíkt þá rannsökum við það.

Við erum búin að fá þessa tilkynningu frá heilbrigðiseftirlitinu og erum að skoða það efni sem kemur þar fram og eftir atvikum að bregðast við því.“

Hann segist ekki geta farið út í það hvað sé búið að gera nú þegar hvað varðar rannsóknina en segir að lögregla sé í sjálfu sér ekki komin langt með hana.

Grímur segist aðspurður ekki alveg geta svarað því að svo stöddu hvaða ákvæði hvaða laga kunna að hafa verið brotin með refsiverðum hætti hvað varðar geymslu matvælanna.

„Þetta er ekki eitthvað sem gerist á hverjum degi hjá okkur að fá svona mál inn á borð. Við skoðum þetta yfirleitt með sérfræðingum okkar á ákærusviði varðandi hvaða refsiverða háttsemi kunni vera um að ræða.“

Aðspurður segir hann að það geti alveg komið til þess að lögregla skoði hvernig lögregluembætti erlendis snúa sér við rannsókn mála ef lögregla er að koma að slíkri tegund mála í fyrsta skipti.

„Það getur alveg gerst til að átta sig á svona „best praxis“.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert