Jarðskjálfti að stærðinni 3 varð rétt norðan Hagafells um hálfsjöleytið í morgun.
Skjálftinn er sá stærsti í nokkra daga á Reykjanesskaga og aðeins stærri en annar upp á 2,9 sem mældist í gær.
Alls hafa rúmlega 600 jarðskjálftar mælst frá miðnætti í og við kvikuganginn þar sem Hagafell og Sundhnúkagígaröðin eru, að sögn Minneyjar Sigurðardóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálftanna eru á fjögurra til sex kílómetra dýpi, sem er álíka og síðustu daga. Enginn gosórói mældist í nótt.
Hún segir að skjálftar á bilinu 2 til 3 stig hafi reglulega mælst við Hagafell undanfarið.