Þrotabú Torgs vill að verktaki endurgreiði laun

Margrét kveðst nú íhuga næstu skref og þiggur alla ráðgjöf …
Margrét kveðst nú íhuga næstu skref og þiggur alla ráðgjöf í þeim efnum. Samsett mynd

Þrotabú Torgs hefur krafið Margréti Erlu Maack um að endurgreiða verktakalaun sem hún fékk fyrir næstsíðasta mánuðinn sem hún vann hjá félaginu. Hljóðar krafan upp á 703.800 krónur. Hafa fleiri verktakar, sem unnu fyrir Fréttablaðið, fengið svipaða kröfu frá þrotabúinu.

Margrét, sem var ekki á launaskrá hjá félaginu heldur starfaði sem svokallaður gerviverktaki, hefur enn ekki fengið greitt fyrir síðasta mánuðinn sem Torg var starfrækt, sem var í mars á þessu ári. Segir hún launakröfuna vera upp á 765 þúsund krónur.

Orðlaus

Margrét greinir frá þessu í færslu á Facebook þar sem hún segist jafnframt hafa lent í fjárhagsþrengingum eftir að í ljós kom að hún fengi síðasta mánuðinn ekki greiddann. Þegar loks var farið að sjá til sólar barst ábyrgðarbréf þess efnis að henni bæri að borga til baka síðasta reikninginn sem hún hafði fengið greiddan frá Torgi.

Ég er búin að vera orðlaus yfir þessu í nokkurn tíma og mjög lítil í mér. Sú litla orka sem ég hef fer í að vera hlý með barninu mínu og ég er svo þakklát fyrir það að vera með viku og viku-forræði til að geta hlaðið mig og unnið á kvöldin. Afsakið kæru vinir og fjölskylda hvað ég hef verið fjarræn og fókuslaus síðustu mánuði,“ segir í færslu Margrétar.

Torg hefði ekki verið borgunaraðili

Hún greinir frá því að í bréfinu hafi komið fram að henni ætti að vera dagljóst að Torg hefði ekki verið borgunaraðili fyrir reikningnum í ljósi fréttaflutnings af gjaldþrotinu.

Í samstarfi við lögmann minn ákváðum við að bjóða skiptidíl. Þið skuldið mér og nú segið þið mig skulda. Þessu var hafnað með löngum pósti til lögfræðingsins míns og nú var að koma gagntilboð: Að ég megi borga 80% af „skuldinni minni.“

Allt þetta er víst löglegt. Þrotabú Torgs neitar að greiða mér laun því ég var verktaki. Þeir krefja mig um að endurgreiða laun því ég var verktaki. Tveir mánuðir sem ég vann á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í vaskinn.

Hún kveðst nú íhuga næstu skref og þiggur alla ráðgjöf í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka