Ljóst að mörg hús hafa orðið fyrir altjóni

Hulda segir að öll hús í bænum verði þrívíddarteiknuð með …
Hulda segir að öll hús í bænum verði þrívíddarteiknuð með hliðsjón af drónaskotum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Náttúruhamfaratrygging Íslands telur alveg ljóst að á svæðinu nærri sprungunni í Grindavík séu talsvert mörg hús sem væntanlega hafa orðið fyrir altjóni.

Þetta segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, en hún fór í vettvangsgöngu eftir sprungunni, þar sem mestu skemmdirnar hafa orðið í bænum, ásamt burðarþolsfræðingi, matsmanni á vegum náttúruhamfaratryggingar.

Hús þrívíddarteiknuð eftir drónaskotum

Hulda segir í samtali við mbl.is að Náttúruhamfaratrygging Íslands hafi gert samning við verkfræðistofuna Eflu um að aðstoða við að meta tjón á húseignum í Grindavík.

„Það var drónamyndataka í gær sem gekk mjög vel og mun halda áfram í dag en hún mun hjálpa okkur að átta okkur á skekkjum á húsum og slíku – svona stóru myndinni og hæðarbreytingum,“ segir Hulda.

Hún segir að unnið verði úr þeim myndum um og eftir helgi en meðal annars verði öll hús í bænum þrívíddarteiknuð með hliðsjón af drónaskotunum.

„Við getum ekki sagt fyrr en í byrjun næstu viku hver niðurstaðan úr því verður og ekki verður hægt að fara í frekara tjónamat fyrr en svæðið telst öruggt.“

Víða hafa hús skemmst í jarðskjálftunum sem hafa gengið yfir …
Víða hafa hús skemmst í jarðskjálftunum sem hafa gengið yfir Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæjarfélagið tekur afstöðu til endurbyggingar

Hafið þið velt fyrir ykkur þeirri sviðsmynd að bærinn geti að lokum verið dæmdur ónýtur?

„Nei, við erum ekki komin þangað og það er í rauninni ekki á okkar borði. Það eru skipulagsyfirvöld sem hafa með slíkar ályktanir að gera og það er bæjarfélagið sem fer með skipulagsvaldið.

Við þurfum að fá afstöðu frá sveitarfélaginu hvort endurbygging eða viðgerðir á húsum séu heimilar þar sem þau eru eða hvort endurbygging verði ekki heimil. Við tökum engar slíkar ákvarðanir.“

Hulda segir að ef svo færi að bærinn yrði úrskurðaður óbyggilegur bæti Náttúruhamfaratrygging eingöngu beint tjón af völdum hamfarana.

„Það þarf að hafa orðið beint tjón á eigninni til að komi til bóta frá Náttúruhamfaratryggingu. Þar sem hús hafa talin verið óbyggileg vegna ofanflóðahættu, sem eru kannski ekkert ólíkar aðstæður og þarna, þá hefur ofanflóðasjóður tekið ábyrgð á þeim húsum.

Hulda segir að Náttúruhamfaratrygging Íslands þurfi að fá afstöðu frá …
Hulda segir að Náttúruhamfaratrygging Íslands þurfi að fá afstöðu frá sveitarfélaginu hvort endurbygging eða viðgerðir á húsum séu heimilar þar sem þau eru. Eggert Jóhannesson

Enginn sjóður til að taka á annarri áhættu

Það er enginn sérstakur sjóður til nú þegar til að taka á annarri áhættu,“ segir Hulda og bætir því við að hún reikni með að það yrði á borði ríkisstjórnar Íslands að taka afstöðu til þess ef til kæmi.

Hulda segir þá að lokum að Náttúruhamfaratrygging Íslands sem og öll vátryggingafélögin séu með viðveru í þjónustumiðstöðinni fyrir Grindvíkinga sem staðsett er í gamla tollhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík.

„Þar munum við reyna okkar besta að svara öllum þeim spurningum sem á Grindvíkingum brenna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert