„Auðvitað vill maður alltaf að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig þegar maður er í keppni við eitthvað en við vinnum allan sólarhringinn og þessu miðar áfram,“ segir Arnar Smári Þorvarðarson, byggingartæknifræðingur hjá Verkís. Arnar Smári er einn fulltrúa Verkís við gerð varnargarða til að verja innviði á Reykjanesskaga.
Vinna stendur nú yfir við tvo varnargarða. Annars vegar við fjögurra kílómetra bogadreginn garð í kringum orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið en hins vegar eins og hálfs kílómetra langan garð ofan við Hagafell og Sýlingarfell, nær Sundhnúkum.
„Þetta eru fyrstu áfangarnir sem við leggjum áherslu á,“ segir Arnar Smári en auk þess hafa verið hannaðir varnargarðar fyrir Grindavíkurbæ. Í fyrstu verða garðarnir um þriggja metra háir og svo verður metið hvort þurfi að hækka þá. Segir Arnar Smári að fyrst og fremst sé horft til þess að byrja að koma upp garði þar sem hættan á hraunrennsli sé hvað mest.
Arnar Smári segir að í vikunni hafi verið sniðnir ýmsir vankantar af framkvæmdinni og vélum hafi verið bætt við þegar þörfin hafi verið metin. „Við fengum þessa stóru ýtu og svo er önnur stór beltagrafa væntanleg seinnipartinn,“ sagði hann síðdegis í gær. Umrædd jarðýta, Caterpillar D11, er raunar engin smásmíði, 104 tonn að þyngd og sú stærsta á landinu.
Vel á fimmta tug stórvirkra vinnuvéla er á svæðinu. Þar af eru um 25-30 treilerar, fjórar stórar ýtur og þrjár minni, 4-5 stórar beltagröfur og tveir valtarar að sögn Arnars Smára. „Ég held svo að hér séu um 35-40 manns að störfum hverju sinni en það fækkar reyndar aðeins á nóttunni.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.