„Við sitjum hérna reið og sár“

Stella og fjölskylda hafast við í orlofshúsi Blaðamannafélagsins í Stykkishólmi.
Stella og fjölskylda hafast við í orlofshúsi Blaðamannafélagsins í Stykkishólmi. Samsett mynd/Aðsend/Blaðamannafélagið

„Við sitjum hérna reið og sár“, segir Guðveig Sigurlaug Ólafsdóttir íbúi í Grindavík.

Guðveig, sem alltaf er kölluð Stella, rétt eins og amma hennar og alnafna heitin, er ein af þeim fjölmörgu Grindvíkingum sem þurfti að yfirgefa heimili sitt um síðustu helgi.

Hún er ósátt við skipulagið í kringum verðmætabjörgunina og kveður nokkra íbúa hafa fengið að fara mun oftar inn á heimili sín en aðra. 

„Ekkert búið að hafa samband við dóttur mína“

Að sögn Stellu er ekki búið að hafa samband við dóttur hennar sem er búsett á mjög miklu hættusvæði við Víkurbraut í Grindavík.

„Við vitum að húsið hennar er ónýtt en hún hefur ekki fengið að fara heim til sín.“

Stella hefst við í bústað Blaðamannafélagsins í Stykkishólmi með stórfjölskyldu sinni en stjúpfaðir hennar er Hjörtur Gíslason, fyrrum blaðamaður á Morgunblaðinu til 40 ára.

„Við höfum reynt að ná í alla en það virðist enginn svara neinu. Fólk er að fara þarna trekk í trekk og fylla bíla og annað og sumir fá að fara mörgum sinnum inn en svo eru aðrir sem fá ekki einu sinni að fara inn,“ segir Stella, sem segir að það virðist vera sem þeir sem haldi utan um aðgerðir séu með gamla íbúaskrá því þau hafi heyrt að fólk hafi fengið skilaboð sem sé löngu flutt úr bænum.

Skipuleggjendur hysji upp um sig brækurnar 

Segir hún að í eitt skipti hafi fjölskyldunni verið tilkynnt að þau ættu tíma klukkan eitt eftir hádegi til að komast í húsin sín.

„Við keyrðum héðan öll á þremur bílum og sonur minn kom úr Keflavík og það var svo lokað á nefið á okkur þegar viðvörunarbjöllurnar fóru í gang.

Við fórum fýluferð þá en mér tókst að fara inn í hús dóttur minnar í gær og stútfyllti bílinn, hún er með fimm mánaða og fjögurra ára börn, og það var bara mikil gleði.

Ég komst þangað inn og gat sótt þangað dót fyrir einskæra heppni þar sem sonur minn var svo skelkaður þegar hann leit inn í húsið að hann lokaði á eftir sér án þess að læsa.“

Virkilega dónaleg

Þá vandar hún lögreglukonu einni á Suðurnesjum ekki kveðjurnar.

„Hún er búinn að svara tvisvar í síma og fær sko núll í einkunn. Hún fær ekki góða umsögn frá mér, hún er bara virkilega dónaleg.“

Fjölskyldan vill koma þeim skilaboðum til þeirra sem skipuleggja aðgerðir að þau þurfi að hysja upp um sig brækurnar og skipuleggja aðgerðir miklu betur. Það þurfi að hafa samband við fólk og bjóða því að sækja verðmæti og svara bæði almennilega í síma og tölvupóstum.

Hafa það fínt í Stykkishólmi

Spurð um húsnæðismál í náinni framtíð segir Stella að fjölskyldan geti jafnvel fengið annan bústað á vegum Blaðamannafélagsins í Bláskógabyggð en segir að þau geti fengið að vera í þeim í Stykkishólmi fram til áramóta.

„Við erum búin að láta skrá okkur á lista hjá Rauða krossinum til þess að reyna að finna íbúð. Það eru allir boðnir og búnir að leyfa okkur að vera hjá sér en það er þægilegra að vera á eigin vegum en að búa inni á fólki.“

Hún segir fjölskylduna hafa það fínt í Stykkishólmi miðað við allt og að þau séu afskaplega þakklát Blaðamannafélaginu fyrir bústaðinn.

„Þetta er stór og góður bústaður og það fer ekki illa um okkur. Við erum að ferja dót hingað en við vitum svo sem ekkert hvernig við eigum að koma því til baka eða hvert við munum fara.“

Helga, móðir Stellu og Hjörtur stjúpfaðir.
Helga, móðir Stellu og Hjörtur stjúpfaðir. Ljósmynd/Aðsend

Þetta er bærinn okkar og við þekkjum ekkert annað

Stella og fjölskylda er með sjö eignir í Grindavík. Hús dóttur hennar er ónýtt.

„Ég fór þangað inn og það er bara labbað upp í móti á einum stað og niður í móti á öðrum. Það er sprunga í bílskúrnum og í gegnum allt húsið. Það sama á við hjá frænku minni í þar næsta húsi á Víkurbraut. Svo er auðvitað endalaust landsig alla daga þannig að maður veit ekkert ennþá.“

Viljið þið búa áfram í Grindavík ef það verður mögulegt í framtíðinni?

„Já, þetta er bærinn okkar og við þekkjum ekkert annað. Ef við myndum fara þaðan myndum við helst vilja vera í útjaðri Reykjavíkur,“ segir Stella en henni heyrist á bæjarbúum að almennt stefni Grindvíkingar aftur heim.

Lokapróf eftir eina viku

Stella er í námi og er að fara í lokapróf eftir eina viku. Hún kláraði matsveininn í vor og er að klára matartækninn núna. Hún segist sitja og skrifa matseðla í þessum töluðu orðum. Dóttir hennar er dagmamma í bílskúrnum sem hún var að missa og tengdasonur hennar starfar hjá Vísi.

„Tengdasonur minn fær laun í þrjá mánuði og dóttir mín var í fæðingarorlofi. Sonur minn er að vinna á smíðaverkstæðinu Grindinni og vonandi verður nóg að gera hjá honum í framtíðinni í Grindavík. Mamma og Hjörtur eru komin á eftirlaun.

Stella segir að fjölskyldunni skiljist að vélar og tæki hafi verið flutt í burtu frá Vísi.

„Við vonumst auðvitað til að starfsemi hefjist þar á ný og teljum það enda hvergi eins góð fiskimið og hér.“

Hvert á ég að fara og hvar á ég að vera?

Hvaða hugsanir og tilfinningar bærast með þér í dag?

„Er ég að fara að byrja upp á nýtt einhvers staðar annars staðar? Ég er búinn að vera þarna allt mitt líf. Hvert á ég að fara og hvar á ég að vera? Núna er staðan þannig á Íslandi að ég er búin að eiga húsið mitt í 19 ár.

Ég er ekki að fara að kaupa mér, sem einstæð móðir með uppkomin börn, hús upp á fleiri tugi milljóna í Reykjavík,“ segir Stella og bætir því við að fasteignaverð sé helmingi lægra í Grindavík en á höfuðborgarsvæðinu.

„Fólk hefur verið að koma úr blokkaríbúð í Reykjavík til að kaupa sér einbýlishús í Grindavík,“ segir hún.

Adam Logi, barnabarn Stellu, er í góðu yfirlæti í Stykkishólmi. …
Adam Logi, barnabarn Stellu, er í góðu yfirlæti í Stykkishólmi. Þetta listaverk er af fjölskyldunni og Steinþóri, besta vini hans, sem hann saknar mikið. Ljósmynd/Aðsend

Yndislegt fólk í Stykkishólmi

Stella segir að fjölskyldan sé ekki í góðri aðstöðu til að notfæra sér þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga í Reykjavík þar sem þau hafist við í Stykkishólmi en rúmlega 170 kílómetrar eru frá Stykkishólmi til höfuðborgarinnar.

„Mamma og Hjörtur fóru þangað í gær en þær ferðir sem við förum, þá er brunað til að komast heim.“

Hún segir fólkið í Stykkishólmi búið að vera yndislegt.

„Það er búið að koma með gjafir og dót sem og sund- og líkamsræktarkort. Svo heyrði ég það fyrir tilviljun þegar við vorum að labba í Kringlunni að Lindex byði 10 þúsund króna gjafabréf á hvern heimilismann. Það var virkilega flott, við nýttum okkur það og keyptum nærföt og það sem þurfti.“

Þá nefnir hún að Sara Björnsdóttir, vinkona sín sem á Hótel Kríunes við Elliðavatn í Kópavogi, hafi boðið fjölskyldunni að koma til sín ef þau telji sig þurfa á hvíld að halda.

„Svo veit ég að Rauði krossinn hefur boðið öllum Grindvíkingum 10 þúsund króna gjafabréf. Þannig að það hafa margir verið boðnir og búnir til að veita aðstoð, gefa gjafir og afslætti.

Ég keyrði nú svo hratt hingað vestur í gær. Ef ég hefði verið tekin af löggunni hefði ég nú kannski bara vælt það út að ég væri Grindvíkingur,“ segir Stella, sem er augljóslega ekki búin að tapa gleðinni þrátt fyrir allt sem á hefur gengið.

Sérstakt þakklæti til björgunarsveita- og lögreglumanna

Þá vill fjölskyldan koma á framfæri sérstöku þakklæti til þriggja björgunarsveitarmanna úr Mosfellsbæ sem gáfu fjölskyldunni gott tóm til að bjarga verðmætum úr húsum sínum.

„Við fórum í tvö hús og þeir gáfu þeim þann tíma sem þau þurftu til að ná í sitt dót. Þeir voru rosalega almennilegir.“

Að síðustu vill fjölskyldan senda tveimur lögreglumönnum á Suðurnesjum góðar kveðjur.

„Þeir Jón Brynjari og Árni fá stórt hrós fyrir sérstaklega góð mannleg samskipti en þeir aðstoðuðu mömmu og Hjört við að komast heim til sín.“

Þá segir hún að björgunarsveitarmenn á lokunarpóstum hafi verið einkar elskulegir og hafi boðið upp á kaffi og súkkulaði.

Að lokum vill Stella taka það fram að flestir séu að reyna að gera sitt besta.

„Sumir eiga bara að vera í einhverju öðru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka