Húsnæðismál Grindvíkinga í forgangi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir jarðhræringarnar á Reykjanesskaga gríðarlega stóran atburð.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir jarðhræringarnar á Reykjanesskaga gríðarlega stóran atburð. mbl.is/Óttar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir jarðhræringarnar á Reykjanesskaga gríðarlega stóran atburð og um sé að ræða mjög erfiða tíma fyrir Grindvíkinga. 

Þetta kom meðal annars fram á upplýsingafundi almannavarna í dag en þar sagði Katrín jafnframt að mikilvægt væri að íslenskt samfélag sýndi úr hverju það væri gert og tæki vel utan um Grindvíkinga þar sem þeir stæðu nú frammi fyrir því að samfélag þeirra væri dreift og ekki lengur á sama stað. 

Allt gert svo fólk komist í skjól

Þá fór forsætisráðherra yfir það að mikilvægt væri að fyrirtæki stæðu með sínu starfsfólki og að afkoma Grindvíkinga væri tryggð til næstu þriggja mánaða. Nefndi hún í framhaldinu frumvarp þess eðlis sem þegar hefur verið dreift á Alþingi.  

Tók hún fram að húsnæðismálin væru næsta stóra mál á dagskrá en um væri að ræða 1.200 heimili sem þyrfti að huga að. Búið væri að kortleggja það lausa húsnæði sem hægt væri að nýta og nú þegar hefðu 130 fengið húsnæði í gegnum húsnæðisteymi stjórnvalda þó vissulega biðu aðrar 600 beiðnir frá Grindvíkingum afgreiðslu.

Sagði Katrín að reikna mætti með að ástandið gæti varað áfram og því skipti máli að hafa skjól fyrir sig og sína. Einnig væri horft til lengri tíma og þá til uppbyggingar á húsnæði fyrir Grindvíkinga. Þá yrði allt gert til að fólk kæmist í skjól á meðan á þessari óvissu stæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert