Kemur til greina að flytja inn einingahús

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á upplýsingafundinum fyrr í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á upplýsingafundinum fyrr í dag. mbl.is/Óttar

Stjórnvöld eru að skoða möguleikann á því að flytja inn einingahús fyrir þá íbúa Grindavíkur sem hafa lagt fram beiðnir um húsnæði vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum upplýsingafundi í Skógarhlíð og bætti við að húsin þyrftu að standast allar gæðakröfur.

Um 600 beiðnir um húsnæði hafa borist og hafa stjórnvöld nú þegar getað orðið við 130 þeirra. Að minnsta kosti 400 íbúðir hafa verið boðnar fram af sveitarfélögum, fyrirtækjum, verkalýðshreyfingunni og einstaklingum og segist Katrín ótrúlega ánægð með viðbrögðin við þessum húsnæðisskorti.

Frá verðmætabjörgun í Grindavík.
Frá verðmætabjörgun í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Neyðin er mikil

„Síðan þarf að fara yfir hvernig þær (íbúðirnar) gagnast fólki. Stór hluti þeirra kemst væntanlega í notkun en þetta er flókin staða. Við vorum með þunga stöðu á húsnæðismarkaði fyrir þessa hræðilegu atburði en það er bara að vinna úr því sem við höfum," sagði Katrín og nefndi að vandamálið kallaði á mikil samtöl stjórnvalda við sveitarfélögin bæði á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu.

Frá fundi almannavarna í dag.
Frá fundi almannavarna í dag. mbl.is/Óttar

Spurð sagðist hún ekki geta nefnt sérstaka staði þar sem húsnæðið verður í boði og nefndi að vilji fólks þyrfti að ráða för því Grindvíkingar vildu ekkert endilega búa allir á sama stað.

„Við erum að fara yfir allt laust húsnæði sem er í boði."

Innt eftir því hversu langan tíma það gæti tekið að útvega Grindvíkingum húsnæði sagði hún verkefnið þegar farið af stað og að þegar væri byrjað að koma fólki í húsnæði. „Mér finnst viðbragðið hafa verið hratt en neyðin er líka mikil," sagði hún og bætti við að af beiðnunum 600 um húsnæði hefði hún upplýsingar um að 330 myndu komast í notkun tiltölulega hratt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert