Langt þar til hægt verður að flytja í bæinn

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, á upplýsingafundi í dag.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, á upplýsingafundi í dag. mbl.is/Óttar

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir umfang þeirra atburða sem orðið hafa í Grindavík slíkt að langur tími muni líða þar til öruggt verður að flytja aftur í bæinn og að Grindvíkingar þurfi að gera ráð fyrir að búa annars staðar næstu mánuðina.

Því bendi allt til þess að ekki verði haldin venjuleg jól í Grindavík.

Á fundi almannavarna sagði Víðir mikilvægt að sýna samstöðu með Grindvíkingum og finna leiðir til að gera lífið bærilegt. „Það þarf að hugsa í lausnum.“

„Við finnum það sterkt að hugur Grindvíkinga liggur heim og það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að vinna að því að svo verði, en það mun taka tíma.“

Frá fundi almannavarna í dag.
Frá fundi almannavarna í dag. mbl.is/Óttar

Hugsa hratt og kynna lausnir

Hann hvatti fyrirtæki, stofnanir, stjórnvöld og aðra til að hugsa hratt og kynna lausnir.

Almannavarnir muni samhæfa í þéttu samstarfi við Grindavíkurbæ og ríkisstjórnina allar aðgerðir.

Markmiðið sé að verja öryggi og velferð íbúa í Grindavík og á sama tíma vinna að varnaraðgerðum sem auka öryggi allra íbúa á Reykjanesskaga, meðal annars með byggingu varnargarða og áframhaldandi mati á öryggi mikilvægra innviða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert