Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að reynt verði að tryggja að grunnskólanemendur bæjarins fái að halda hópinn. Gengið sé út frá því að tvístra ekki hópnum, heldur að börnin fái að vera saman í bekkjum.
Fannar sagði á fundi almannavarna í dag að margt hefði gerst á þessari einu viku frá því að bærinn var rýmdur.
Mikil vinna hafi farið í gang um síðustu helgi á vegum fræðslusviðs Grindavíkur til að reyna að halda uppi skólahaldi fyrir börnin.
Fyrstu formlegu úrræðin verði tekin í gagnið í skólum Reykjavíkurborgar næsta miðvikudag. Hið sama er að segja um leikskólamálin.
Fannar sagði það eðlilegt að fólk sem ekki veit um framtíð sína og búsetuúrræði næstu vikurnar setji það ekki endilega í forgang að koma börnunum í skóla, af hættu á því að þurfa að flytja annað.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, sagði á fundinum að Grindvíkingar mættu gera ráð fyrir því að að búa annars staðar næstu mánuði, þar sem langt er þar til öruggt verður að flytja aftur í bæinn.