Opna miðstöð fyrir fjölmiðlafólk

Fjöldi erlendra fjölmiðlamanna hafa lagt leið sína til Íslands.
Fjöldi erlendra fjölmiðlamanna hafa lagt leið sína til Íslands. mbl.is/Brynjólfur Löve

Klukkan tólf á morgun verður opnuð miðstöð fyrir fjölmiðlafólk sem er að fjalla um jarðhræringarnar í og við Grindavík. Miðstöðin verður staðsett á annarri hæð í Hringhellu 9A í Hafnarfirði og verður hún opin kl. 8-16 alla daga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Vilja tryggja upplýsingaflæði

„Með þessu er verið að bregðast við miklum áhuga erlendra fjölmiðla á að fjalla um atburðina, skapa þeim vinnuaðstöðu og tryggja gott upplýsingaflæði. Miðstöðin er fyrst og fremst ætluð erlendu fjölmiðlafólki en innlent fjölmiðlafólk er einnig velkomið. Ferðamálastofa í samvinnu við Íslandsstofu, SafeTravel og Almannavarnir mun sjá um rekstur og umsjón miðstöðvarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Enn fremur segir að í miðstöðinni verði vinnuaðstaða fyrir fjölmiðlafólk og viðvera starfsfólks frá Ferðamálastofu og Íslandsstofu til að veita upplýsingar.

Þá er stefnt að því að sérfræðingar eða fulltrúar á vegum stjórnvalda verði með viðveru í miðstöðinni í um klukkustund á hverjum degi til að svara spurningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert