Skoða aðstoð við íbúðakaup

Stórar sprungur eru í mörgum húsum í Grindavík.
Stórar sprungur eru í mörgum húsum í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnvöld eru með til skoðunar að aðstoða Grindvíkinga við íbúðakaup og mögulegt er talið að fundin verði leið til þess með samstarfi Seðlabankans, viðskiptabankanna og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þetta staðfestir Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokks í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að hugmyndin sé víða í skoðun og hafi einnig verið rædd í ríkisstjórn.

„Það eru margar íbúðir til sölu sem verktakar geta ekki leigt en verða að selja til að geta komist áfram í næsta fasteignaverkefni. Ef stjórnvöld aðstoða Grindvíkinga við að kaupa sér eign, þá ná þeir stöðugleika á meðan ástandið gengur yfir og geta farið að búa til verðmæti aftur í stað þess að greiða 300 til 400 þúsund á mánuði í leigu. Þegar staðan verður komin í lag í Grindavík getur fólk tekið ákvörðun um að fara til baka og selt,“ segir Vilhjálmur.

Fasteignasalar segja að Grindvíkingar séu farnir að leita sér að íbúðum til kaups á höfuðborgarsvæðinu.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir við Morgunblaðið að það væri áhugavert að skoða hvernig hraða megi verklokum og þannig koma hundruðum og þúsundum íbúða hraðar inn á markaðinn á næstu árum, fyrir alla í húsnæðisleit, ekki aðeins Grindvíkinga. „Ef þetta ástand varir um lengri tíma held ég að við eigum að varast lélegar skyndilausnir heldur horfa fyrst til þess húsnæðis sem til er og þess sem er í byggingu og byggist á vönduðu skipulagi,“ segir Dagur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert