Frekari aðgerðir til að koma til móts við Grindvíkinga eru í skoðun hjá Landsbankanum. Samskipti við stjórnvöld um næstu skref hafa átt sér stað.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Á mánudaginn kynnti Landsbankinn það úrræði að allir viðskiptavinir bankans í Grindavík gætu frestað afborgunum af íbúðalánunum sínum í sex mánuði.
„Um er að ræða hefðbundna frestun, þ.e. viðskiptavinir borga ekkert af lánunum en frestaðar greiðslur af vöxtum/verðbótum bætast við lánið. Vextir og verðbætur bera þó ekki vexti fyrr en 12 mánuðum eftir að afborgunum er frestað,“ segir í tilkynningu bankans.
Fjármálastofnanir og bankar hafa hlotið gagnrýni fyrir viðbrögð sín við því óvissuástandi sem nú ríkir meðal Grindvíkinga. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt viðbrögðin er Lilja Alferðsdóttir viðskiptaráðherra.
„Við vitum fullvel að frestun á afborgunum er ekki lausnin á öllum þeim fjárhagslegu áskorunum sem Grindvíkingar standa frammi fyrir. Frestun afborgana er á hinn bóginn úrræði sem getur létt á fjárhagnum til skamms tíma og veitt fjárhagslegt svigrúm, sem getur verið gott á þessum óvissutímum,“ segir í tilkynningu Landsbankans.