Tímamót í íslenskri knattspyrnu

Jóhannes Eðvaldsson skorar fyrra mark Íslands með svokallaðri hjólhestaspyrnu eða …
Jóhannes Eðvaldsson skorar fyrra mark Íslands með svokallaðri hjólhestaspyrnu eða bakfallsspyrnu, sem var sjaldséð á þessum tíma. mbl.is/Friðþjófur Helgason

Árangur í íþróttum hefur oft glatt Íslendinga og stundum er sagt að karlalandsliðið í fótbolta hafi hreinlega bjargað geðheilsu landsmanna á öðrum áratug líðandi aldar með frábærum árangri í undan- og aðalkeppni Evrópumótsins 2016 og heimsmeistarakeppninnar 2018.

Áður höfðu reyndar undur og stórmerki gerst. Eftir 2:1-sigur á Austur-Þjóðverjum í undankeppni EM 1976 á Laugardalsvelli 5. júní 1975 þurfti þriggja hæða fimm dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu daginn eftir til að vekja athygli á mikilvægi úrslitanna, en greint var frá leiknum á báðum útsíðum auk íþróttaopnu.„Stærsti dagur íslenzkrar knattspyrnu er þýzka stórveldið var að velli lagt í glæsilegum leik í gær“ var helsta fyrirsögn dagsins.

Leiksins í Reykjavík fyrir tæplega hálfri öld var beðið með mikilli eftirvæntingu eftir markalaust jafntefli við Frakkland skömmu áður og 1:1-jafntefli í Austur-Þýskalandi í október 1974, en í báðum tilvikum var talað um ævintýri. Morgunblaðið sagði frá því að erlendir fjölmiðlar „nefndu íslenska liðið hinn nýja „spútnik“ knattspyrnunnar“, en varað var við of mikilli bjartsýni í blaðinu á leikdegi og bent á að Austur-Þjóðverjar, sem hefðu orðið í 5.-6. sæti í nýliðinni heimsmeistarakeppni, væru í fremstu röð knattspyrnuliða heims. „Eitt það bezta sem sézt hefur á Laugardalsvellinum.“

Skjáskot/Tímarit.is

Tony Knapp landsliðsþjálfari sagði að landsleikurinn yrði sá erfiðasti umrætt sumar og endurtók í samtali við Morgunblaðið það sem hann sagði fyrir Frakkaleikinn. „Íslendingar eru lítið farnir að leika á grasi í sumar og eru ekki komnir í fulla æfingu.“ Ekki væri samt ástæða til svartsýni og varamennirnir væru ekki síður mikilvægir en þeir sem spiluðu allan leikinn.

Í íslenska liðinu voru Sigurður H. Dagsson, Gísli Torfason, Jón Pétursson, Marteinn Geirsson, Jóhannes Eðvaldsson, Hörður Hilmarsson (Karl Hermannsson 77. mín.), Guðgeir Leifsson, Ólafur Eggert Júlíusson, Ernst Elmar Geirsson (Matthías Hallgrímsson 85.), Ásgeir Sigurvinsson og Teitur Benedikt Þórðarson. Ónotaðir varamenn voru Árni Stefánsson, Björn Lárusson, Grétar Magnússon og Jón Gunnlaugsson.

Allir viðmælendur Morgunblaðsins spáðu Austur-Þjóðverjum sigri en í umsögn blaðsins um leikinn sagði að ef hægt væri að gagnrýna eitthvað væri það helst að íslenska liðið skyldi ekki skora fleiri mörk. „Á Íslandi er nú lið sem getur jafnvel boðið hinum beztu byrginn.“

Nánari umfjöllun má lesa í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka