Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur hleypur í skarð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á viðburði á vegum bókmenntahátíðarinnar Iceland Noir í Fríkirkjunni nú í kvöld. Katrín átti, ásamt Ragnari Jónassyni rithöfundi, að spjalla við Ryan Tubridy.
Yrsa sagði við ljósmyndara mbl.is að það væri stórt skarð að fylla í, en að hún myndi reyna að gera sitt besta. Katrín var vant við látin vegna verkefna í tengslum við Grindavík en hún sat einmitt fyrir svörum á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag.
Í upphafi viðburðarins í Fríkirkjunni var boðið upp á köku sem er endurgerð af kökunni sem boðið var upp á á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar. Kakan fór vel í mannskapinn og Ragnar og Yrsa árituðu bækur í gríð og erg.
Skáldsaga þeirra Ragnars og Katrínar, Reykjavík, gerist einmitt árið 1986 á þeim tíma er 200 ára afmæli Reykjavíkur var fagnað og boðið var upp á kökuna sögufrægu.
Aðsóknin var svo mikil að spjallið með Ryan Tubridy hófst ekki á réttum tíma.